spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlent10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í júlí 2017

10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í júlí 2017

Mynd: Sóllilja Baltasardóttir.

Júlí verður drekkhlaðinn mánuður þar sem boðið verður upp á hlaðborð af MMA veigum. Við fáum tvö stór kvöld frá UFC og tvö minni, þar með talið verður á boðstólnum endurkoma Jon Jones í bardaga sem gæti verið sá stærsti á árinu.

Bellator og Invicta verða með minni bardagakvöld og Gunnar Nelson og Sunna Rannveig Davíðsdóttir berjast sömu helgi. Byrjum þetta á niðurtalningu þar sem við urðum að minnast á nokkra góða bardaga sem ekki komust á topp 10.

20. UFC 213, 8. júlí – Daniel Omielańczuk gegn Curtis Blaydes (þungavigt)
19. UFC 213, 8. júlí – Travis Browne gegn Oleksiy Oliynyk (þungavigt)
18. UFC on Fox 25, 22. júlí – Jimmie Rivera gegn Thomas Almeida (bantamvigt)
17. UFC Fight Night 113, 16. júlí – Stevie Ray gegn Paul Felder (léttvigt)
16. UFC 214, 29. júlí – Doo Ho Choi gegn Andre Fili (fjaðurvigt)
15. UFC 214, 29. júlí – Ricardo Lamas gegn Jason Knight (fjaðurvigt)
14. UFC 214, 29. júlí – Jimi Manuwa gegn Volkan Oezdemir (léttþungavigt)
13. UFC 213, 8. júlí – Anthony Pettis gegn Jim Miller (léttvigt)
12. UFC 214, 29. júlí – Aljamain Sterling gegn Renan Barão (hentivigt)
11. UFC Fight Night 113, 16. júlí – Joanne Calderwood gegn Cynthia Calvillo (strávigt kvenna)

10. UFC 213, 8. júlí – Fabricio Werdum gegn Alistair Overeem (þungavigt)

Þessi tveir turnar hafa mæst tvisvar áður. Werdum sigraði í Pride árið 2006, með „kimura“ uppgjafartaki. Overeem sigraði svo í Strikeforce árið 2011 á stigum. Nú þarf að útkljá þetta í eitt skipti fyrir öll. Báðir eru á topp 5 á styrkleikalista UFC svo bardaginn er mjög mikilvægur hvað varðar framtíðar titilbardaga.

Spá: Spáum því að Overeem haldi þessu standandi og sigri á stigum.

9. TUF Finale, 7. júlí – Michael Johnson gegn Justin Gaethje (léttvigt)

Það verður spennandi að sjá hinn líflega Justin Gaethje berjast í UFC í fyrsta sinn. Verkefnið verður ekki beint auðvelt en hann fer beint í topp 5 andstæðing. Michael Johnson er með sigra gegn Tony Ferguson, Joe Lauzon, Edson Barboza og Dustin Poirier en þó hefur hann tapað þremur af síðustu fjórum bardögum.

Spá: Johnson sigrar á tæknilegu rothöggi í þriðju lotu í brjáluðum bardaga.

8. UFC 214, 29. júlí – Cristiane Justino gegn Tonya Evinger (fjaðurvigt kvenna)

Germaine de Randamie hefur verið svipt titlinum í fjaðurvigt kvenna og ekkert til fyrirstöðu fyrir Cris ‘Cyborg’ Justino að eigna sér flokkinn. Cyborg þarf ekki að kynna en Evinger er ríkjandi Invicta meistarinn í bantamvigt kvenna. Hún hefur sigrað tíu bardaga í röð, er nokkuð sterk á öllum vígstöðum en fellurnar eru hennar besta vopn.

Spá: Þetta verður skemmtilegt en Cyborg er óstöðvandi, hún rotar Evinger í fyrstu lotu.

Mynd: Sóllilja Baltasardóttir.

7. Invicta FC 24, 15. júlí – Sunna Davíðsdóttir gegn Kelly D´Angelo (strávigt kvenna)

Sunna okkar berst sinn þriðja atvinnumannabardaga í júlí. Að þessu sinni mætir hún hinni bandarísku Kelly D´Angelo sem er líka 2-0 í MMA. D´Angelo hefur klárað báða andstæðinga sína, þann fyrsta með „guillotine“ hengingu í annarri lotu og þann næsta með tæknilegu rothöggi í þriðju lotu. Það má því búast við hörku bardaga.

Spá: Sunnuvélin heldur áfram á fullu skriði. Hún sigrar eftir dómaraákvörðun.

6. UFC 213, 8. júlí – Amanda Nunes gegn Valentina Shevchenko (bantamvigt kvenna)

Amanda Nunes og Valentina Shevchenko mættust á UFC 196 fyrir um ári síðan í þriggja lotu bardaga. Nunes sigraði nokkuð örugglega á stigum en Shevchenko vann þriðju lotuna og leit vel út. Hvað gerist þá í fimm lotu bardaga? Hvor hefur bætt sig meira og lært af fyrstu viðureigninni. Þetta eru klárlega tvær bestu bardagakonurnar í þessum þyngdarflokki, þetta verður spennandi.

Spá: Valentina Shevchenko nær að knýja fram sigur á stigum í jöfnum bardaga. Nýr meistari.

5. UFC on Fox 25, 22. júlí – Chris Weidman gegn Kelvin Gastelum (millivigt)

Hvað skal segja um þennan bardaga? Eftir þrjú hræðileg töp þarf Chris Weidman bardaga sem hann getur unnið nokkuð auðveldlega til að koma sér á strik og byggja upp sjálfstraustið aftur. Kelvin Gastelum er ekki sá andstæðingur. Þetta er mjög hættulegur bardagi fyrir Weidman sem var ósigraður meistari fyrir um tveimur árum síðan en er nú í algjörri krísu. Maður þorir varla að horfa á þennan.

Spá: Góð felluvörn Gastelum og betra box skilar honum sigri í þriðju lotu eftir tæknilegt rothögg. Fjórða tapið í röð verður að veruleika, því miður.

4. UFC 213, 8. júlí – Yoel Romero gegn Robert Whittaker (millivigt)

Þetta er heillandi bardagi. Það voru ekki margir sem bjuggust við því að Whittaker myndi afgreiða Jacare Souza með jafn afgerandi hætti líkt og hann gerði. Með þeim sigri er „Bobby Knuckles“ kominn í raðir þeirra allra bestu í millivigt og þarf þar af leiðandi að mæta skrímslum eins og Yoel Romero. Menn hafa skiptar skoðanir um Romero en allir eru sammála um hversu hættulegur hann er. Í átta UFC bardögum hefur hann enn ekki tapað þrátt fyri rað hafa mætt nöfnum eins og Tim Kennedy, Lyoto Machida, Jacare Souza og Chris Weidman. Verður Ástralinn ungi bara enn eitt nafnið á ferilskrá Romero?

Spá: Tökum sénsinn á hinum skemmtilega Whittaker. Hann sigrar eftir ákvörðun dómaranna.

3. UFC 214, 29. júlí – Tyron Woodley gegn Demian Maia (veltivigt)

Loksins, loksins, loksins fær Demian Maia að berjast um titil í veltivigt og það bara eftir nokkrar vikur. Woodley hefur ekki beint verið vinsæll meistari en hann er sterkur glímumaður með mikinn sprengikraft og höggþyngd. Við vitum nákvæmlega hvað Maia ætlar að gera en spurningin er bara hvort hann geti það gegn Woodley.

Spá: Tökum sénsinn á Maia. Hann breytir sér í bakpoka og klárar bardagann með „rear-naked choke“ í fyrstu lotu.

2. UFC Fight Night 113, 16. júlí – Gunnar Nelson gegn Santiago Ponzinibbio (veltivigt)

Næsta fórnarlamb Gunnars Nelson verður Argentínumaðurinn Santiago Ponzinibbio eftir aðeins tvær vikur. Gunnar leit vel út í síðasta bardaga gegn Alan Jouban og hefur verið að æfa stíft síðan. Ponzinibbio hefur sigrað fjóra andstæðinga í röð og ætti að reynast erfiður andstæðingur. Hann er tæknilegur boxari með svart belti í Jiu-Jitsu en á það til að breytast í „brawler“ þegar líður á bardagann.

Spá: Fyrsta lota verður jöfn og fer fram standandi en í annarri lotu nær Gunnar að draga Ponzinibbio niður í hyldýpi þar sem svarta beltið bjargar honum ekki. Gunnar sigrar með uppgjafartaki í annarri lotu.

1. UFC 214, 29. júlí – Daniel Cormier gegn Jon Jones (léttþungavigt)

Þvílík spenna! Eftir rúmlega árs fjarveru snýr Jon Jones aftur í búrið og það beint í titilbardaga gegn DC. Þegar þessir kappar mættust fyrst árið 2015 var bardaginn nokkuð jafn en Jones sigraði þó örugglega á stigum. Nú er Cormier orðinn 38 ára gamall en hefur verið að berjast oftar og litið mjög vel út undanfarið, sérstaklega gegn Anthony Johnson í apríl. Verður Jones ryðgaður? Verður Cormier allt í einu gamall? Verður annar búinn að átta sig á veikleikum hins og læra af þeim? Fer bardaginn fram??

Spá: Það er erfitt að spá gegn Jon Jones. Segjum að Jones endurheimti titilinn, sannfærandi sigur á stigum.

spot_img
spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular