spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlent10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í september 2019

10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í september 2019

September er stór mánuður. Sjálfur Khabib Nurmagomedov ver titilinn í léttvigt og Gunnar Nelson snýr aftur. Auk þeirra er fullt af öðrum spennandi bardögum.

10. UFC fight night 158, 14. september – Glover Teixeira gegn Nikita Krylov (léttþungavigt)

Glover Teixeira verður fertugur í október en hann er langt frá því að vera hættur. Glover hefur unnið þrjá af síðustu fjórum bardögum og hefur litið bara nokkuð vel út þrátt fyrir að vera greinilega kominn yfir sitt besta. Hér fær hann viðeigandi andstæðing en Nikita Krylov snéri nýlega aftur í UFC og hefur tapað einum og unnið einn bardaga síðan.

Spá: Teixeira sigrar á uppgjafartaki í fyrstu lotu.

9. Bellator 226, 7. september – Ryan Bader gegn Cheick Kongo (þungavigt)

Ryan Bader hefur ekki tapað síðan árið 2016, þá gegn Anthony Johnson í UFC. Í janúar vann hann þungavigtarmót Bellator og ver nú beltið í fyrsta sinn gegn Cheick Kongo. Á einhvern undarlegan hátt hefur Kongo unnið átta bardaga í röð þrátt fyrir að vera orðinn 44 ára gamall. Er loksins kominn tími til að Kongo verði heimsmeistari?

Spá: Svarið er nei. Bader glímir Kongo í drasl og sigrar með TKO á gólfinu í fjórðu lotu.

8. UFC 242, 7. september – Islam Makhachev gegn Davi Ramos (léttvigt)

Islam Makhachev er smám saman að verða þekktari, þó helst fyrir að vera félagi Khabib Nurmagomedov. Hann er mjög efnilegur en mætir hér brasilísku glímuskrímsli. Davi Ramos er kubbur og tvöfaldur ADCC meistari, minnir stundum á Rousimar Palhares ef það hjálpar. Þetta er því Combat Sambo á móti Brasilíksu Jiu-Jitsu, mjög spennandi.

Spá: Makhachev nær að verjast glímuárás Ramos og sigrar á stigum.

7. UFC fight night 160, 28. september – Ion Cuțelaba gegn Khalil Rountree Jr. (léttþungavigt)

Khalil Rountree Jr. opnaði augu margra með frammistöðu sinni í hans síðasta bardaga gegn Eryk Anders. Það verður mjög spennandi að sjá hann aftur í búrinu og hvort hann geti haldið áfram uppteknum hætti. Cutelaba er harðjaxl og fullkominn andstæðingur á þessum tímapunkti fyrir Rountree. Þetta verður mjög áhugavert.

Spá: Rountree sparkar Cutelaba sundur og saman og rotar hann í annarri lotu.

6. UFC fight night 160, 28. september – Jack Hermansson gegn Jared Cannonier (millivigt)

Þá er það stóra stund Jack Hermansson, aðalbardagi í Skandinavíu og tækifæri til að skjóta sér upp listann og í toppbaráttuna. Í vegi hans stendur Jared Cannonier sem hefur litið mjög vel út undanfarið. Verður þetta stór stund fyrir Hermansson og Norðmenn eða mikil vonbrigði?

Spá: Hermansson sigrar á tæknilegu rothöggi í þriðju lotu.

5. UFC fight night 159, 21. september – Yair Rodríguez gegn Jeremy Stephens (fjaðurvigt)

Það er alveg hugsanlegt að UFC sé eitthvað illa við hinn 26 ára Yair Rodríguez. Fyrst var hann leiddur fyrir Frankie Edgar sem gaf honum glímu- og olnbogasnæðing árið 2017. Yair jafnaði sig að lokum og óð svo í gegnum eld og brennistein með Korean Zombie í fyrra. Núna er hann mættur aftur og þarf að mæta Jeremy Stephens í öðrum fimm lotu bardaga sem ætti að verða hrikalega erfiður. Enginn sagði að UFC-lífið væri dans á rósum.

Spá: Rodríguez fær dómaraákvörðunina en þetta mun taka á.

4. UFC 242, 7. september – Edson Barboza gegn Paul Felder (léttvigt)

Þessir mættust áður árið 2015 en þá sigraði Barboza á stigum í skemmtilegum en grjóthörðum bardaga. Enduratið ætti að vera ekki síður rosalegt þar sem stílar þessara tveggja nánast gulltryggja góðan bardaga. Það verður sparkað og blóð mun renna en verður þetta eitthvað öðruvísi en síðast?

Spá: Þetta byrjar hratt og endar hratt, Felder rotar Barboza í lok fyrstu lotu.

3. UFC fight night 158, 14. september – Donald Cerrone gegn Justin Gaethje (léttvigt)

Það þarf ekki að segja mikið um þennan bardaga. Þessir tveir eiga það sameiginlegt að vera bardagahundar en eru á sama tíma með þeim bestu í léttvigt. Þetta ætti að verða standandi stríð en það er ekki öruggt. Donald Cerrone mun sennilega reyna að berjast tæknilega og nota mikið spörk en Gaethje á það til að draga menn inn í einhverja vitleysu. Vonum að þetta standi undir væntingum.

Spá: Cerrone rotar Gaethje í annarri lotu í fjörugum bardaga.

2. UFC fight night 160, 28. september – Gunnar Nelson gegn Thiago Alves (veltivigt)

Gunnar Nelson snýr aftur í búrið fimm mánuðum eftir tapið gegn Leon Edwards. Gunnar er nú orðinn 31 árs og ætti því að vera á hápunkti krafta sinna. Hér mætir hann reynsluboltanum Thiago Alves sem hefur barist í UFC í 14 ár og mætt mönnum eins og Georges St. Pierre, Matt Hughes og Carlos Condit. Alves er hættulegur þó hann sé kominn yfir sitt besta en sigur fyrir Gunnar hefur sjaldan verið mikilvægari.

Spá: Gunnar sigrar örugglega með „guillotine“ í fyrstu lotu.

1. UFC 242, 7. september – Khabib Nurmagomedov gegn Dustin Poirier (léttvigt)

Léttvigt virðist standa á krossgötum þessa stundina. Framtíð hennar veltur talsvert á þessum bardaga en á hliðarlínunni standa Tony Ferguson og Conor McGregor, báðir tilbúnir í slaginn. Khabib er kóngurinn þessa stundina en Dustin Poirier er búinn að vinna núna í röð Anthony Pettis, Justin Gaethje, Eddie Alvarez og Max Holloway. Tími og tækifæri Poirier er núna til að gera hið ómögulega og verða fyrstur til að sigra rússnesku vélina sem glímdi við birni í æsku.

Spá: Dustin mun standa sig vel en finnur ekki svar við glímunni. Khabib sigrar á stigum.

spot_img
spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular