Október var nokkuð rólegur mánuður í MMA heiminum. Upp úr stendur helst bardagi Gunnars Nelson og Rick Story og frábær bardagi milli José Aldo og Chad Mendes. Lítum á það helsta sem er framundan í nóvember en fjaðurvigtin gæti stolið senunni.
Stærsti bardagi nóvember mánaðar verður því miður ekki að veruleika þar sem meistarinn í þungavigt, Cain Velasquez, meiddist enn einu sinni. Mark Hunt berst í hans stað í spennandi bardaga á móti Fabrício Werdum en Velasquez verður samt sárt saknað. Til að bæta gráu ofan á svart verður bardagi Diego Sanchez og Joe Lauzon heldur ekki að veruleika vegna meiðsla en við vonum að þeir mætist síðar þegar þeir eru búnir að jafna sig. Í lokin meiddist Jimi Manuwa en Ovince St. Preux leysir hann af og berst þar af leiðandi ekki við Feijão. Það er ýmislegt framundan eins og mikilvægir bardagar í fjaðurvigt og erfiður bardagi fyrir Michael Bisping. En nei, Tito Oritz gegn Stephan Bonnar komst ekki á blað.
10. UFC Fight Night 55, 8. nóvember -Ross Pearson gegn Al Iaquinta (léttvigt)
Þessi bardagi hefur kannski ekki mikla þýðingu í léttvigt en hann ætti að verða mjög skemmtilegur. Pearson og Iaquinta eru báðir höggþungir og tæknilegir. Pearson er sennilega aðeins höggþyngri en Iaquinta ætti að vera betri á gólfinu enda lærisveinn Matt Serra.
Spá: Þetta verður spennandi bardagi en erfiður fyrir Iaquinta. Ross nær inn þyngri höggum, verst fellum og rotar Al í annarri lotu.
9. UFC 180, 15. nóvember – Jake Ellenberger gegn Kelvin Gastelum (veltivigt)
Jake Ellenberger er undir mikilli pressu að halda stöðu sinni í þyngdarflokknum eftir tvö töp í röð á móti Robbie Lawler og Rory MacDonald. Tapi hann sínum þriðja bardaga á móti andstæðingi eins og Gastelum má nánast afskrifa að hann berjist um titil. Gastelum var stórlega vanmetinn í The Ultimate Fighter en hefur nú sigrað fjóra bardaga í UFC, þar með talið gegn Rick Story og Uriah Hall. Sigri hann Ellenberger stekkur hann upp í topp í 1o með stóru strákunum.
Spá: Þetta gæti orðið jafn bardagi og það er auðvelt að afskrifa Ellenberger eftir tvö töp í röð. Hann er hins vegar ennþá einn af þeim bestu og mun minna á það með sigri á Gastelum. Elleberger sigrar á stigum.
8. Bellator 131, 15. nóvember – Michael Chandler gegn Will Brooks (léttvigt)
Það kom mörgum á óvart þegar Will Brooks sigraði Michael Chandler í maí á klofnum dómaraúrskurði og tók laust belti í léttvigt sem Eddie Alvarez hafði skilið eftir. Nú fær Chandler annað tækifæri. Mun niðurstaðan vera önnur?
Spá: Chandler leit út eins og skugginn af sjálfum sér í síðasta bardaga. Kannski var það Brooks að þakka en það verður að teljast líklegt að hann komi sterkari til baka. Chandler sigrar að þessu sinni, einróma dómaraákvörðun.
7. UFC Fight Night 56, 8. nóvember – Mauricio Rua gegn Ovince St. Preux (léttþungavigt)
Þessi bardagi var settur saman þegar Jimi Manuwa meiddist eins og fram kom að ofan. Það er skrítið að hugsa til þess að “Shogun” Rua er aðeins 32 ára gamall. Hann hefur barist í 12 ár við alla þá bestu og virðist vera kominn vel yfir sitt besta – fyrst og fremst út af sliti. Á hinn bóginn virðist St. Preux, sem er 31 árs, vera í sínu besta formi á ferlinum. Hann hefur sigrað 9 af 11 bardögum í Strikeforce og UFC en tapaði sínum síðasta bardaga á móti Ryan Bader.
Spá: “OSP” er langt frá því að vera tæknilega fullkominn eins og sást gegn Bader. Rua verður samt í vandræðum með að klára hann og gæti lent í vandræðum þegar líður á fimm lotu bardagann. Spáum því að OSP nái “side-choke” í fjórðu lotu.
6. UFC Fight Night 57, 22. nóvember – Joseph Benavidez gegn Dustin Ortiz (fluguvigt)
Líkt og Urijah Faber og Chad Mendes virðist Joseph Benavidez geta sigrað alla nema ríkjandi meistara. Hann verður nú að halda áfram herferð sinni og berja niður þá sem reyna að komast upp fyrir hann í röðinni. Dustin Ortiz er eitt besta efnið í UFC. Hann virðist betri í hverjum bardaga og hefur nú sigrað þrjá af fjórum. Báðir eru með bakgrunn í ólympískri glímu og eru tæknilega mjög góðir.
Spá: Ortiz er á hraði uppleið en það er erfitt að veðja gegn Benavidez. Joseph nær hengingu í annarri lotu, Dustin lærir af reynslunni.
5. UFC Fight Night 57, 22. nóvember – Bobby Green gegn Edson Barboza (léttvigt)
Bobby Green er kannski sá Strikeforce bardagamaður sem hefur komið mest á óvart í UFC. Fyrst kláraði hann hinn seiga Jacob Volkmann, svo sigraði hann James Krause í ljótum og skrítnum bardaga. Næst sigraði hann Pat Healy og í kjölfarið fyrrverandi Strikeforce meistara, Josh Thomson. Hér mætir hann Barboza sem er fyrst og fremst þekktur fyrir frábær spörk sem hafa skilað honum mörgum eftirminnilegum sigrum. Green og Barboza ættu að vera nokkuð jafnir í gólfinu svo spurningin er hver mætir til leiks með bestu bardagaáætlunina.
Spá: Á pappír er þetta ansi jafn bardagi. Tilfinningin er hins vegar sú að Green sé snjallari en Barboza og finni leið til að sigra. Green á stigum.
4. UFC 180, 15. nóvember – Ricardo Lamas gegn Dennis Bermudez (fjaðurvigt)
Dennis Bermudez tapaði á móti Diego Brandao í úrstlitum af The Ultimate Fighter 14. Síðan þá hefur hann sigrað sjö bardaga í röð en mætir hér sínum erfiðasta andstæðingi. Lamas tapaði fyrir José Aldo í febrúar en hefur sigrað alla hina fimm sem sem hann hefur mætt í UFC, meðal annars Cub Swanson. Þessi bardagi verður stál í stál frá upphafi til enda.
Spá: Lamas er reyndari í stórum bardögum en Bermudez virkar einfaldlega hungraðri þessa dagana. Hann mun nota mikla pressu, fellur og glímuhæfileika sína til að sigra Lamas á stigum.
3. UFC Fight Night 55, 8. nóvember – Luke Rockhold gegn Michael Bisping (millivigt)
Af einhverjum ástæðum eru Michael Bisping bardagar alltaf spennandi. The Count virðist þó tapa öðrum hvorum bardaga og ætti að tapa þessum ef það mynstur á að halda áfram. Það yrði líka í takt við þá þróun á ferli hans að tapa fyrir þeim allra bestu. Rockhold er kannski ekki stærsta nafnið en hann er einn besti andstæður sem Bisping hefur mætt. Rockhold er fyrrverandi Strikeforce meistari. Hann hefur sigrað erfiða bardagakappa á borð við “Jacare” Souza og Tim Kennedy og eina tap hans síðan árið 2007 var “spinning back kick” rothöggið á móti Vitor Belfort.
Spá: Rockhold er einfaldlega of góður fyrir Bisping. Hann er með lengri faðm, með betri spörk og betra jiu-jitsu. Rockhold klára hertogann í þriðju lotu með “rear-naked choke”.
2. UFC 180, 15. nóvember – Fabrício Werdum gegn Mark Hunt (þungavigt)
Það var leiðinlegt að heyra af meiðslum Cain Velasquez en það var ánægjulegt að heyra að Mark Hunt væri klár í að berjast í hans stað. Hunt og Werdum munu berjast um “interim” belti og vonandi berst sigurvegarinn við Velasquez snemma á næsta ári. Þetta er áhugaverður bardagi þar sem Werdum er alltaf að verða betri sparkboxari eins og hann sýndi á móti Roy Nelson og Travis Browne. Það getur verið hættulegt að standa á móti Hunt og sennilega best fyrir Werdum að reyna að ná Hunt í gólfið þar sem hann ætti að hafa yfirburði enda margfaldur jiu-jitsu heimsmeistari.
Spá: Það ætti enginn að vanmeta Hunt. Hann getur rotað hvern sem er með einu vel staðsettu höggi og það getur verið erfitt að ná honum niður. Werdum er hins vegar alhliða betri bardagamaður og ætti að sigra þennan bardaga. Segjum að Werdum sigri eftir uppgjafartak í fjórðu lotu.
1. UFC Fight Night 57, 22. nóvember – Frankie Edgar gegn Cub Swanson (fjaðurvigt)
Þessi bardagi er síðasti UFC bardaginn í nóvember. Það er mjög skrítið andrúmsloft í kringum fjaðurvigt þessa dagana. Cub Swanson segir að honum hafi verið lofað bardaga við meistarann með sigri á Edgar, enda hefur hann unnið sex bardaga í röð. Á sama tíma virðist UFC vilja láta Conor McGregor berjast við José Aldo, sigri hann Dennis Siver í janúar. Áður en það verður vandamál þarf Swanson að sigra fyrrverandi meistara í léttvigt, Frankie Edgar, sem er alls ekki gefið.
Spá: Það er líklegt að þessi bardagi verði nokkuð jafn og spennandi. Sennilega fer hann allar fimm loturnar og endar með klofnum úrskurði dómaranna. Swanson sigrar.