spot_img
Friday, December 20, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlent2015: Bardagamaður ársins

2015: Bardagamaður ársins

conor mcgregor Gunnar Nelson
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

2015 var frábært ár fyrir marga bardagamenn og auðvitað fyrir bardagaaðdáendur líka. Hér höfum við valið tíu bestu bardagamenn ársins en valið var alls ekki auðvelt og komu margir til greina.

10. Andrei Arlovski (2-0)

Andrei Arlovski hefur á ótrúlegan hátt komist í titilbaráttuna í UFC 36 ára að aldri. Bardagi hans gegn Travis Browne var einn besti bardagi ársins og ein skemmtilegasta lota allra tíma. Sigurinn kom honum á topp fimm í þungavigtinni í UFC sem er ótrúlegt miðað við hvar ferill hans var staddur fyrir tveimur árum síðan. Öskubuskusaga hans hélt áfram er hann sigraði Frank Mir síðar á árinu og hefur hann nú sigrað fjóra bardaga í röð í UFC.

9. Alistair Overeem (3-0)

Bæði Alistair Overeem og Arlovski hafa sýnt að það er aldrei hægt að afskrifa neinn í þungavigtinni. Overeem átti gott ár en hann sigraði alla þrjá bardaga sína á árinu. Sigrarnir á Stefan Struve og Roy Nelson komu honum í mikilvægan bardaga gegn Junior dos Santos sem Overeem kláraði með rothöggi.

8. Daniel Cormier (2-1)

Árið hjá Cormier byrjaði ekkert sérstaklega vel. Hann tapaði titilbardaganum gegn Jon Jones en eftir að Jones var sviptur titlinum mætti Cormier hinum höggþunga Anthony Johnson í maí. Eftir vandræði í fyrstu lotu kláraði Cormier Johnson með hengingu í 3. lotu. Cormier varði svo beltið gegn Alexander Gustafsson í frábærum fimm lotu bardaga. Hann mun mæta Jon Jones aftur á næsta ári.

7. Demetrious Johnson (2-0)

Enginn meistari berst jafn oft og Demetrious Johnson en hann barðist þó aðeins tvisvar í ár. Báðir bardagarnir voru öruggir sigrar á þeim Kyoji Horiguchi og John Dodson og var meistarinn ekki í teljandi vandræðum með þá. Johnson lýkur árinu í efsta sæti styrkleikalistans yfir bestu bardagamenn heims, pund fyrir pund.

max holloway
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

6. Max Holloway (4-0)

Max Holloway barðist fjóra bardaga í ár og sigraði þá alla. Þegar árið hófst var Holloway ekki einu sinni á topp 15 styrkleikalista UFC. Hann kom sér hins vegar í fjórða sæti styrkleikalistans og er á meðal fremstu bardagamanna í heiminum í fjaðurvigtinni í dag. Sigurinn á Charles Oliveira var kannski óvenjulegur en enginn getur deilt um sigrana á Cub Swanson og Jeremy Stephens.

luke rockhold
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

5. Luke Rockhold

Luke Rockhold kórónaði gott ár með því að sigra Chris Weidman á UFC 194 í desember. Rockhold hefur lengi haldið því fram að hann sé besti millivigtarmaður heims og sýndi það á árinu sem er að líða. Áður en hann sigraði Weidman tókst honum að sigra Lyoto Machida með miklum yfirburðum.

joanna champion bloody

4. Joanna Jedrzejczyk (3-0)

Hin pólska Joanna Jedrzejczyk átti einfaldlega magnað ár. Hún byrjaði árið á því að sigra þáverandi meistara, Carla Esparza, með miklum yfirburðum í mars. Hún varði svo beltið sitt í tvígang gegn Jessica Penne og Valerie Létourneau en bardaginn gegn Penne var einstaklega grófur og blóðugur. Skemmtilegur persónuleiki og frábært Muay Thai hennar hefur gert hana afar vinsæla meðal bardagaaðdáenda. Jedrzejczyk er á allt öðrum stað í dag en fyrir ári síðan og getur vel við unað eftir árið.

rafael_dos_anjos_belt

3. Rafael dos Anjos (2-0)

Fáir áttu von á því að Rafael dos Anjos myndi vinna Anthony Pettis á UFC 185. Enn færri áttu von á því að hann myndi sigra með svo miklum yfirburðum líkt og hann gerði. Rafael dos Anjos er léttvigtarmeistari UFC og varði beltið sitt gegn Donald Cerrone fyrr í mánuðinum. Hann kemur sífellt á óvart og hafa margir eflaust vanmetið hann í upphafi árs.

Holly Holm

2. Holly Holm (3-0)

Það er ekki annað hægt en að setja Holly Holm ofarlega á listann. Konan sem rotaði Rondu Rousey átti sennilega sitt besta ár á íþróttaferlinum. Fyrstu tveir sigrar hennar í UFC voru ekkert sérstaklega eftirtektarverðir en sigurinn á Rousey var það svo sannarlega. Sigurinn breytti lífi hennar og verður gaman að sjá nýja bantamvigtarmeistarann á nýju ári.

conor mcgregor
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

1. Conor McGregor (3-0)

Bardagamaður ársins 2015 er enginn annar en Conor McGregor. McGregor byrjaði árið á að sigra Dennis Siver í janúar með tæknilegu rothöggi. Þegar Jose Aldo þurfti að hætta við bardagann gegn McGregor á UFC 189 steig Chad Mendes inn með þriggja vikna fyrirvara. McGregor hefði getað neitað að berjast við Mendes þar sem hann er allt öðruvísi andstæðingur en Aldo. McGregor vildi þó ekki valda írskum aðdáendum vonbrigðum sem höfðu keypt flug, hótel og miða á UFC 189. McGregor sigraði auðvitað Mendes með tæknilegu rothöggi í 2. lotu. Eftir bardagann kom í ljós að McGregor hafi slitið 80% af krossbandi sínu á æfingu nokkrum vikum fyrir bardagann sem gerði undirbúninginn mun erfiðari. McGregor kórónaði svo frábært ár með því að rota Jose Aldo á aðeins 13 sekúndum. Þrír sigrar og þrjú rothögg hjá honum á árinu. Ótrúlegt ár hjá honum og verður gaman að fylgjast með honum á næsta ári.

Aðrir sem komu til greina: Demian Maia (3-0), Thomas Almeida (3-0), Neil Magny (4-1), Rose Namajunas (2-0), Tony Ferguson (3-0).

2015: Bestu uppgjafartök ársins

2015: Bestu bardagar ársins

2015: Stærstu fréttir ársins (Erlent)

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular