spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlent2016: Bestu bardagar ársins

2016: Bestu bardagar ársins

Nú er árið á enda og um að gera að fara aðeins yfir það besta sem var í boði í bardagasenu ársins 2016. Við fengum marga frábæra bardaga á árinu en hér höfum við tekið saman þá tíu bestu.

Það sem þessir bardagar eiga sameiginlegt er að hafa fengið okkur öll til þess að öskra, svitna, hlæja og upplifa alls konar tilfinningar. Bardagarnir eru valdir með tilliti til aðstæðna, baksögu og skemmtanagildis. Það er erfitt að hafa horft á svo marga bardaga á árinu og fá einungis að velja þá tíu sem þóttu bestir en þetta er tilraun til þess og hver og einn getur haft sína skoðun. Hægt er að horfa á flesta bardagana á Fight Pass rás UFC.

Mynd: Jake Roth-USA TODAY Sports

10. Marco Polo Reyes gegn Dong Hyun Kim – UFC 199

Þessi bardagi var mögnuð skemmtun og sér í lagi fyrsta lotan og áttu fáir von á því að sjá bjölluna hringja inn aðra lotu. Báðir menn stóðu þó eftir 1. lotuna á einhvern ótrúlegan hátt og heldu svo áfram að skiptast á höggum í hrikalega skemmtilegum bardaga sem Reyes sigraði svo með rothöggi í 3. lotu.

Fight Pass hlekkur

9. Anderson Silva gegn Michael Bisping – UFC Fight Night 84

Skemmtilegur bardagi að því leyti að þetta var upphafið af ótrúlegu ári Michael Bisping í UFC og á þeim tíma sem allir höfðu afskrifað hann sem titiláskoranda. Bisping var þolinmóður og skynsamur í sínum aðgerðum og sló Anderson Silva niður snemma í bardaganum. Atvik bardagans var svo í lok 3. lotu þegar Silva hitti Bisping með hnésparki og fagnaði eins og óður maður en komst svo að því að dómarinn hafði ekki stöðvað bardagann. Bisping náði að jafna sig og sigla heim sigrinum eftir dómaraákvörðun. Hann vann svo millivigtartitilinn í næsta bardaga sínum og varði hann svo einu sinni það sem eftir var árs.

Fight Pass hlekkur

8. Conor McGregor gegn Nate Diaz I – UFC 196

Þessi bardagi lagði grunninn að einum skemtilegasta ríg síðari ára í sportinu og ruddi svo sannarlega veginn þegar kemur að peningahliðinni. Nate Diaz kom inn með tíu daga fyrirvara og tók öllu sem Conor McGregor átti og hélt áfram að þjarma að honum. Á endanum sprengdi Conor sig í 2. lotu og skaut í örvæntingarfulla fellu sem er aldrei gott gegn Diaz-bræðrunum. Conor endaði á því að gefast upp eftir „rear naked choke“ og tapaði þar með sínum fyrsta bardaga í UFC og skaut Nate Diaz loksins upp á störnuhimininn.

Mynd: Brad Rempel-USA TODAY Sports

7. Tony Ferguson gegn Lando Vannata – UFC Fight Night 91

Klassíska sagan um lítilmagnann sem á ekki að eiga séns gegn stóra manninum. Tony Ferguson átti að berjast gegn Michael Chiesa en Chiesa meiddist skömmu fyrir bardagann og kom nýliðinn Lando Vannata inn og átti að vera auðveld bráð fyrir ‘El Cucuy’. Vannata kom svo öllum á óvart og gaf ekkert eftir. Þetta var einn erfiðasti bardagi Ferguson á ferlinum en náði sigrinum loks með „D’Arce“ hengingu í 2. lotu.

6. Sean O’Connell gegn Steve Bosse – UFC Fight Night 89

Bardagi sem var ótrúlega spennandi og hafði allt. Það eina sem þeir gerðu var að standa og skiptast á höggum en þannig viljum við stundum hafa það. Þeir skiptust á að vera slegnir niður og niðurstaðan var ógleymanlegur bardagi sem Bosse vann eftir dómaraákvörðun. Hvernig þeir voru gátu báðir staðið í lappirnar í lok bardagans er óskiljanlegt.

Fight Pass hlekkur

5. Tyron Woodley gegn Stephen Thompson – UFC 205

Næstsíðasti bardaginn á UFC 205 bardagakvöldinu í New York. Titilbardagi sem endar í jafntefli er yfirleitt gott sjónvarp. Bardaginn var jafn og Woodley náði að loka á helstu vopn Thompson sem eru fjarlægðin og spörk. Bardaginn var kannski ekki taumlaus skemmtun allan tímann en fjórða lota var ein mest spennandi lota ársins. Woodley var nánast búinn að rota Thompson en einhvern veginn náði karate strákurinn að þrauka og halda sér í bardaganum. Bardaginn var það góður að það var vart búið að lesa upp úrslitin segar byrjað var að tala um endurat milli þessara bardagakappa.

Fight Pass hlekkur

UFC Fight Night: Dillashaw v Cruz
Mynd: Maddie Meyer

4. T.J. Dillashaw gegn Dominick Cruz – UFC Fight Night 81

Þessi bardagi var hnífjafn og var erfitt að vita hvor fengi sigurinn dæmdan sér í vil eftir fimm jafnar lotur. Hann var líka sérstaklega áhugaverður þar sem Cruz var að koma til baka úr erfiðum meiðslum í annað skiptið á ferlinum. Cruz vann beltið sitt aftur sem hann hafði aldrei tapað í búrinu og var þetta ein besta endurkoma í sögu MMA. Cruz tapaði svo beltinu á dögunum þegar hann tapaði fyrir til Cody Garbrandt.

Fight Pass hlekkur

3. Cub Swanson gegn Doo Hoi Choi – UFC 206

Það er ekki langt síðan þessi bardagi átti sér stað en maður lifandi hvað hann var góður! Hvernig báðir aðilar stóðu uppréttir í lok bardagans er lygilegt en bæði Cub Swanson og Doo Ho Choi sýndu ótrúlegt hjarta og höku sem báðir geta verið stoltir af. Bardaginn var hraður og sýndi manni allt það besta sem er hægt að sjá í MMA og ætti að vera einn af þeim bardögum sem ættu að kveikja áhuga á MMA hjá einstaklingum sem þekkja ekki íþróttina.

2. Robbie Lawler gegn Condit – UFC 195

Það er auðvelt að gleyma því að þessi bardagi hafi verið á árinu sem leið enda er nánast heilt ár síðan hann fór fram, þann 2 janúar 2016. Þetta var frábær og hnífjafn bardagi og myndatakan í lok bardagans þegar báðir leggja hendur á búrið hlið við hlið og eru alveg búnir á því er svo eftirminnileg. Þarna var strax farið að tala um bardagann sem mögulegan bardaga ársins og aðeins tveir dagar liðnir af því! Það má vel hugsa sér að bardagi Robbie Lawler og Rory McDonald og svo þetta stríð hafi átt sinn þátt í því að Lawler var síðar rotaður í fyrstu lotu af Tyron Woodley og tapaði þar með titlinum.

Fight Pass hlekkur

1. Conor McGregor gegn Nate Diaz II – UFC 202

Sá bardagi á árinu þar sem mest var undir og hann stóð svo innilega undir væntingum. Conor lagði allt undir, gaf skít í fjaðurvigtina og vildi ekkert annað en að berjast við Nate Diaz. UFC 200 dramað bættist svo við, flöskukastið, skítkastið og allt hitt sem endaði í söluhæsta PPV-bardagakvöldi UFC. Bardaginn sjálfur var hin besta skemmtun en Conor og Nate skiptust á því að vinna lotur og rífa kjaft. Loksins varð niðurstaðan sú að Conor McGregor sigraði bardagann eftir meirihluta dómaraákvörðun og jafnaði þar með sakirnar og hefndi fyrir tap sitt gegn Diaz fyrr á árinu.

Fight Pass hlekkur

spot_img
spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular