spot_img
Friday, November 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlent10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í febrúar 2018

10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í febrúar 2018

Það eru ekki alltaf jólin en febrúar mánuður er góð áminning um einmitt það. Það er heill hellingur af bardagakvöldum en gæði bardaganna er ekki alveg eins og best væri kosið. Það má þó finna gullmola hér og þar, lítum á þetta.

10. UFConFox 28, 24. febrúar – Ovince Saint Preux gegn Ilir Latifi (létt þungavigt)

OSP og Ilir Latifi eru báðir á topp tíu á styrkleikalista UFC eins ótrúlegt og það kann að virðast. Eftir þrjú töp gegn Jon Jones, Jimi Manuwa og Volkan Oezdemir hefur OSP unnið þrjá bardaga í röð og gæti mögulega komið sér í titilbardaga með öðrum sigri. Latifi er höggþungur köggull sem gæti rotað hvern sem er með rétta högginu. Hann hefur hingað til verið álitinn B-klassa bardagamaður en sigur gegn OSP gæti breytt því viðhorfi.

Spá: OSP lifir af hættuleg augnablik og sigrar á stigum.

9. Bellator 194, 16. febrúar – Matt Mitrione gegn Roy Nelson (þungavigt)

Ég trúi því varla að þessi sé á listanum en það endurspeglar lélegan mánuð. Þungavigtarmót Bellator er kannski algjör sirkús en þetta er engu að síður skemmtilegt. Þessir tveir mættust áður í UFC árið 2012 en þá sigraði Nelson á rothöggi í fyrstu lotu.

Spá: Big Country rotar Mitrione í fyrstu lotu, aftur.

8. UFConFox 28, 24. febrúar – Ben Saunders gegn Alan Jouban (veltivigt)

Það er alltaf gaman að fylgjast með fyrrum andstæðingum Gunnars Nelson. Alan Jouban þarf nauðsynlega á sigri að halda eftir tvö slæm töp í röð. 10th planet bardagakappinn Ben Saunders er sýnd veiði en ekki gefin. Hann á að baki langan feril og getur unnið hvern sem er á réttu kvöldi.

Spá: Jouban kemst aftur á sigurbraut með tæknilegu rothöggi í þriðju lotu.

7. UFC Fight Night 125, 3. febrúar – John Dodson gegn Pedro Munhoz (bantamvigt)

Þessi topp tíu bantamvigtarbardagi gæti orðið mikið fyrir augað. John Dodson þarf ekki að kynna en hann er einn hraðasti og höggþyngsti bardagamaðurinn í léttari þyngdarflokkunum – rotaði til að mynda ríkjandi meistara T.J. Dillashaw á sínum tíma. Perdo Munhoz er minna þekktur en hann hefur litið frábærlega út upp á síðkastið og unnið fjóra bardaga í röð – nú síðast í október afgreiddi hann Rob Font með uppgjafartaki í fyrstu lotu.

Spá: Dodson notar hraðann og sigrar á stigum.

6. UFC on Fox 28, 24. febrúar – Josh Emmett gegn Jeremy Stephens (fjaðurvigt)

Josh Emmett kom öllum á óvart með rosalegu rothöggi gegn Ricardo Lamas í desember. Stærri sigrar þýða stærri bardagar svo nú er að hann kominn í aðalbardaga kvöldsins gegn Jeremy Stephens. Þetta verður sennilega harður bardagi og Stephens gengur yfirlett vel í svoleiðis viðureignum.

Spá: Eitt högg getur breytt öllu en tökum hinn reynslumeiri Stephens með rothögg í annarri lotu.

5. UFC on Fox 28, 24. febrúar – Jéssica Andrade gegn Tecia Torres (strávigt kvenna)

Allir bardagar með Jéssicu Andrade eru spennandi en hér fær hún enn einn gæða andstæðinginn. Tecia Torres er kannski ekki skemmtilegasta bardagakona heims en hennar eina tap á ferlinum var gegn núverandi meistara, Rose Namajunas. Það vill svo til að Torres á líka sigur gegn meistaranum svo það svona næstum núllast út. Þetta er topp fimm bardagi svo sigurvegarinn ætti að vera gjaldgengur í titilbardaga.

Spá: Torres er hörð en Andrade er tortímandi. Andrade sigrar á tæknilegu rothöggi í þriðju lotu.

4. UFC Fight Night 126, 18. febrúar – Donald Cerrone gegn Yancy Medeiros (veltivigt)

Það er stutt síðan Donald Cerrone var á rosalegu skriði. Hann þyngdi sig upp í veltivigt og vann fjóra bardaga í röð og það með tilþrifum. Á síðasta ári þurfti hann hins vegar að þola þrjú töp gegn Jorge Masvidal, Robbie Lawler og Darren Till. Spurningin núna er hvort að þetta hafi verið of erfiðir andstæðingar eða hvort kúrekinn sé búinn að vera. Meideiros hefur unnið þrjá bardaga í röð en Cerrone er stærsta nafnið sem hann hefur mætt.

Spá: Cerrone minnir á sig, nær inn góðu sparki og fylgir eftir með uppgjafartaki.

3. UFC Fight Night 126, 18. febrúar – Derrick Lewis gegn Marcin Tybura (þungavigt)

Á eftir þessum gömlu góðu í þungavigtinni (Overeem, Werdum, Velasquez) koma þessir tveir kappar. Báðir eru 32 ára og báðir eru hálfgerðar vonarstjörnur í þessum aldraða þyngdarflokki. Þessi bardagi er tækifæri fyrir annan þeirra til að skera sig úr og næla sér í góðan sigur.

Spá: Lewis vinnur sveittan þriggja lotu bardaga á stigum.

2. UFC 221, 10. febrúar – Mark Hunt gegn Curtis Blaydes (þungavigt)

Annar topp 10 bardagi í þungavigt. Curtis Blaydes er kominn með stúdentspróf en nú er hann kominn í háskóla. Mark Hunt er hættulegur hliðvörður (e. gatekeeper) inn í toppbáráttuna í þungavigt. Hann er með dýnamít í hnúunum og góða höku að auki sem er þó á undanhaldi. Blaydes mun þurfa að nota hreyfanleika og kænsku til að vinna en er hann tilbúinn?

Spá: Blaydes stenst prófið og sigrar Hunt á stigum.

1. UFC 221, 10. febrúar – Yoel Romero gegn Luke Rockhold (millivigt)

Það var sárt að sjá á eftir Robert Whittaker en við óskum honum góðs bata og vonum að hann komi sem fyrst aftur. Að því sögðu er þessi bardagi á milli Yoel Romero og Luke Rockhold mjög heillandi. Báðir geta litið út eins og algjört skrímsli á réttu kvöldi en hvorugur er ósigrandi. Það verður gaman að sjá hvað gerist ef annar nær fellu en líklegasta niðurstaðan er að bardaginn verði mikið standandi, þar sem báðir munu leita að rothögginu.

Spá: Þetta er erfitt en ég ætla að veðja á Romero. Hann rotar Rockhold í annarri lotu.

spot_img
spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular