Thursday, April 25, 2024
HomeErlentAlexander Gustafsson: Ég sá bara þakið og svo sá ég gólfið

Alexander Gustafsson: Ég sá bara þakið og svo sá ég gólfið

alexander-gustafsson-daniel-cormierAlexander Gustafsson var gestur Ariel Helwani í þætti hans, The MMA Hour, á mánudaginn. Þar talaði hann um bardagann gegn Cormier og kom þar margt áhugavert fram.

Alexander Gustafsson háði frábæran bardaga við Daniel Cormier á UFC 192. Eftir fimm harðar lotur stóð Cormier uppi sem sigurvegari og varði léttþungavigtarbeltið sitt. Þetta var í annað sinn sem Gustafsson tapar í titilbardaga eftir hnífjafnan bardaga.

Í fyrstu lotu tóks Cormier að lyfta Gustafsson hátt upp frá jörðu og kasta honum í gólfið. Gustafsson kvaðst vera hissa á styrk Cormier: „Krafturinn hans kom mér á óvart. Hann hefur bara ótrúlegan styrk og ég hélt að ég væri sterkur og dálítið þungur. Ég sá slammið aldrei koma en ég slasaðist ekkert við það. Leið ágætlega. Ég vissi að þetta væri eitt af því sem hann gerir þannig að þetta kom mér ekkert svakalega á óvart. Það var aðallega þessi rosalegi styrkur hans sem kom mér á óvart,“ sagði Gustafsson við Ariel Helwani.

daniel cormier alexander Gustafsson„Ég sá bara þakið og svo sá ég gólfið. Þetta var flott kast hjá honum.“

Eftir bardagann þakkaði Cormier Svíanum fyrir að hafa gert sig að betri manni eftir þessa fimm lotu reynslu. Bardaginn gerði mikið fyrir báða og bera þeir gríðarlega mikla virðingu gagnvart hvor öðrum.

„Þú ferð þarna inn í átthyrninginn og setur einfaldlega allt í þetta. Eftir það deiliru einhverju með andstæðingi þínum. Það er erfitt að lýsa þessu en þetta er einstök tilfinning og ber ég mikla virðingu gagnvart honum. Ég held að þetta sé einn af þeim hlutum þar sem þú þarft að hafa upplifað aðstæðurnar til að skilja tilfinningarnar sem liggja þarna að baki.“

Gustafsson tókst að vanka Cormier eftir þungt hnéspark í 3. lotu. Cormier náði þó að lifa af og sigraði að lokum. „Þessi maður er algjör skriðdreki. Hann hélt bara áfram að pressa á mig þrátt fyrir að ég væri að kýla hann. Þó ég hefði lamið hann með hafnaboltakylfu hefði hann samt haldið áfram að pressa mig. Hann er rosalega harður og getur svo sannarlega tekið við höggum. Það kom mér kannski á óvart hversu harður hann var.“

Gustafsson var lurkum laminn í bardaganum en segir að meiðslin hafi litið verr út en þau voru í raun. Hann hlaut nokkra skurði en jafnaði sig fljótt. Fljótlega eftir bardagann snéri hann aftur til æfinga þar sem hann hefur tekið nokkrar tækniæfingar með vinum og þjálfurum.

Gustafsson hefur ýmislegt að laga eftir bardagann og ætlar að koma sterkur til baka. Viðtalið í heild sinni má finna á vef MMA Fighting hér.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular