0

Alexander Gustafsson er ekkert að hugsa um beltið

Mynd: MMA Viking.

Alexander Gustafsson mætir Anthony Smith á laugardaginn á UFC bardagakvöldinu í Svíþjóð. Eftir tvö töp gegn Jones er Gustafsson lítið að hugsa um titilinn.

Gustafsson mætir Anthony Smith í aðalbardaga kvöldsins en báðir töpuðu fyrir Jon Jones í þeirra síðasta bardaga – Gustafsson í desember síðastliðnum og Smith í mars.

Gustafsson er á skrítnum stað í léttþungavigtinni en hann hefur tapað öllum þremur titilbardögum sínum og þar af tvisvar gegn ríkjandi meistara. Gustafsson segist lítið vera að hugsa um titilinn núna.

„Ég er ekki einu sinni að hugsa um titilinn. Ég hef hugsað um titilinn í mjög langan tíma og það hefur verið stressandi. Þetta hefur verið í kringum mig í langan tíma og það hefur liðið langt á milli bardaga hjá mér. Ég þarf bara að taka þennan bardaga og þann næsta eftir það og vera duglegri að berjast og reyna að vera betri og klárari bardagamaður. Ég er ennþá bara 32 ára gamall og mér finnst ég ekki ennþá vera orðinn gamall. Ég tel að ég eigi meira inni og er ferskur í skrokknum og líður vel. Ég hef gaman af því að æfa og skoða hvaða áskoranir fylgja eftir að ég vinn Anthony Smith,“ sagði Gustafsson í The MMA Hour á dögunum.

Hugarfarið hans virðist hafa breyst á síðustu mánuðum og verður áhugavert að fylgjast með Gustafsson í framhaldinu. „Ég er hættur að hugsa um að skora á meistarann en því fylgir stress. Það er ekki þannig lengur. Ég er bara að taka einn bardaga í einu og reyni að berjast við þá bestu og njóta þess á meðan.“

„Smith er með gott lið á bakvið sig og þetta verður alvöru áskorun. Þess vegna er ég að þessu, til að skora á sjálfan mig. Þegar ég vinn hann mun ég fara upp styrkleikalistann. Ef ég vinn hann ekki, þá er ég kannski bara ekki með þetta lengur.“

Gustafsson hefur lítið barist undanfarin ár en á síðustu þremur árum hefur hann aðeins barist einn bardaga á ári.

Bardagi Gustafsson og Smith fer fram á laugardaginn í Stokkhólmi og verður aðalbardagi kvöldsins.

Pétur Marinó Jónsson
Latest posts by Pétur Marinó Jónsson (see all)

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Stöð 2 Sport -MMA fíkill

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.