Monday, June 17, 2024
spot_img
HomeErlentAmanda Nunes: Veit ekki hvernig Ronda Rousey komst svona langt

Amanda Nunes: Veit ekki hvernig Ronda Rousey komst svona langt

Bantamvigtarmeistari kvenna, Amanda Nunes, hefur heldur betur látið í sér heyra eftir sigurinn á Rondu Rousey í síðustu viku. Núna skilur hún ekki hvernig Ronda Rousey fór að því að vinna alla bardaga sína.

Amanda Nunes sigraði Rondu Rousey eftir aðeins 48 sekúndur á UFC 207. Ronda Rousey vann fyrstu 12 bardaga sína á ferlinum og varði bantamvigtartitil sinn sex sinnum í UFC. Hún hefur nú tapað tveimur bardögum í röð og ekki litið vel út.

Nunes var hæstánægð með sigurinn og lét gamminn geisa strax eftir sigurinn á Rondu Rousey í viðtali við Joe Rogan. „Takk Ronda Rousey en núna er ég hákarlinn. Ég er meistarinn og er komin til að vera. Hættum þessu Rondu Rousey bulli, ég er meistarinn.“

Nunes hélt áfram að tala um Rondu á blaðamannafundinum eftir bardagann og í viðtali við TMZ í gær. „Ég veit ekki hvernig Ronda Rousey komst svona langt í flokknum. Í fullri hreinskilni skil ég ekki hvernig þessar stelpur gátu tapað fyrir Rondu Rousey. Ég vissi það frá því ég kom fyrst í UFC að ég gæti sigrað Rondu Rousey en ég þurfti auðvitað minn tíma til að setja allt saman. Þetta var dagurinn til að sanna það og ég gerði það,“ sagði Nunes.

Nunes er á því að Ronda Rousey sé ofmetin og er ekki sammála því að Ronda Rousey verði talin sú besta í sögunni þegar hún leggur hanskana á hilluna. „Hún er ofmetin. UFC bjó hana til.“

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular