Sunday, September 8, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaAxarmorðinginn Wanderlei Silva

Axarmorðinginn Wanderlei Silva

Wanderlei Silva var á tímabili bardagamaður sem vakti óttablandna virðingu aðdáenda og andstæðinga hans. Hann barðist við marga af þeim bestu og átti frábæran feril en lauk honum nýlega með skömm. Við gerum upp feril Silva.

wanderlei_silva

Wanderlei “The Axe Murderer” Silva var goðsögn í Japan þegar Pride FC var upp á sitt besta. Silva sigraði ekki bara andstæðinga sína, hann barði þá eins og þeir skulduðu honum pening. Silva var sterkur í sálfræðihernaði sem fólst fyrst og fremst í störu sem myndi fá meðalmanninn til að gera í brækurnar. Staran var samt ekki innantóm ógn. Hún var orðlaus hótun um barsmíðar frá einum rosalegasta berserki í sögu blandaðra bardagalista.

Reglurnar í Pride voru nokkuð frábrugðnar þeim MMA reglum sem þekkjast í dag og það má segja að þær hafi verið sérsniðnar fyrir stíl Silva. Spörk í höfuð á liggjandi manni eru með ruddalegri aðgerðum til að vinna bardaga en Silva gerði þau að sínu aðalsmerki. Fyrsti bardagi Silva við Kazushi Sakuraba í Pride 13 er gott dæmi. Sakuraba var skærasta stjarna Pride en Silva tuskaði honum saman eins og smákrakka og gerði út af við hann með spörkum.

Þegar Silva var upp á sitt besta sigaði hann Dan Henderson, Quinton Jackson í tvígang og Sakuraba þrisvar frá Pride 12 til 28. Wanderlei Silva var meistarinn í millivigt sem var sambærileg við léttþungavigt í UFC. Hann var hins vegar svo harður að hann barðist við Mark Hunt og Mirko Cro Cop tvisvar í þungavigt. Þegar hann fór loksins yfir í UFC voru hans bestu ár að baki en fyrst á dagskrá var draumabardagi á móti Chuck Liddell á UFC 79.

Chuck_and_Wand

Silva tapaði fyrir Liddell í frábærum bardaga sem stóð undir öllum væntingum aðdáenda. Ferill hans í kjölfarið var mjög sveiflukenndur. Hann tapaði fyrir Quinton Jackson, Chris Leben og Rich Franklin í tvígang. Inn á milli vann hann menn eins og Michael Bisping, Cung Le og Brian Stann í frábærum bardaga sem varð hans síðasti á ferlinum.

silva stann
Silva gegn Stann

Til stóð að Silva myndi berjast við Chael Sonnen eftir að hafa þjálfað á móti honum í The Ultimate Fighter Brazil. Eftir að hafa flúið lyfjapróf tilkynnti hann hins vegar að hann væri hættur að berjast fyrir fullt og allt þann 19. september. Fjórum dögum síðar var það tilkynnt að Silva hefði verið settur í ævilangt bann. Þetta er leiðinlegur endir á frábærum ferli og sennilega verður spurningin um stera alltaf tengd honum og afrekum hans sem er synd.

crocop silva
Silva gegn Cro Cop

Þetta er minningargrein þó svo að Silva sé sprell lifandi. Við skulum minnast hans eins og við munum eftir Mike Tyson. Hugsum um bestu ár hans – rothöggin, stóru sigrana á móti Jackson, Sakuraba, Arona og Henderson. Minnumst millivigtarmeistarans og 2003 Grand Prix meistarans sem var einn litríkasti bardagamaður allra tíma. Við hér þökkum fyrir okkur og endum þetta á góðri syrpu frá Silva.

spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -spot_img

Most Popular