Glímumaðurinn Axel Kristinsson úr Mjölni er íþróttamaður Seltjarnarness árið 2015. Óhætt er að segja að Axel hafi átt afar gott ár.
Axel átti afar gott ár í fyrra. Hann byrjaði á því að hafna í þriðja sæti í sínum flokki á Evrópumeistaramótinu í brasilísku jiu-jitsu sem fram fór í Lissabon. Mótið var á sínum tíma stærsta BJJ-mót sögunnar en Axel keppti í flokki brúnbeltinga.
Axel sigraði svo sinn flokk á Mjölnir Open 10 en mótið er nokkurs konar óopinbert Íslandsmeistaramót í uppgjafarglímu án galla (gi). Axel varð einnig Íslandsmeistari í brasilísku jiu-jitsu í galla í nóvember.
Axel vegnaði einnig vel í júdóinu og varð Norðurlandameistari í greininni. Þá sigraði hann Íslandsmeistaramótið í júdó sjötta árið í röð.
Verðlaunin voru veitt í gær en Fanney Hauksdóttir, kraftlyftingarkona, var íþróttakona Seltjarnarness.