UFC tilkynnti í gær að B.J. Penn muni ekki berjast gegn Cole Miller á UFC 199. Penn er sagður hafa brotið reglur USADA og fær hann því ekki að keppa.
Penn gekkst undir lyfjapróf þann 25. mars af USADA en USADA sér um öll lyfjapróf UFC. Penn fékk næringu í æð frá lækni og lét USADA vita þegar hann fór í lyfjaprófið. Það er hins vegar bannað fyrir bardagamenn UFC að fá næringu í æð allan ársins hring (nema bardagamenn séu innlagðir á spítala eða fari í skurðaðgerð).
Penn segist ekki hafa vitað að slíkt væri bannað í yfirlýsingu á heimasíðu sinni. „Af fúsum og frjálsum vilja upplýsti ég USADA um notkun mína á næringu í æð undir handleiðslu læknis. Reglurnar um næringu í æð hafa breyst síðan ég barðist síðast og ég vissi ekki að slíkt væri bannað og upplýsti því USADA um málið. Ég hafði ekki hugmynd um að notkun á næringu í æð væri bannað 365 daga ársins,“ segir Penn en goðsögnin barðist síðast í júlí 2014.
Penn er sannfærður um að niðurstöður lyfjaprófsins komi hreint út og vonast til þess að berjast sem fyrst.
Margir bardagamenn fengu hér áður fyrr næringu í æð eftir vigtun til að jafna sig fyrr á niðurskurðinum fyrir bardaga. Þegar USADA tók yfir lyfjamál UFC var slíkt bannað. Næring í æð er sögð geta skekkt niðurstöður lyfjaprófa og falið steranotkun. Þess má geta að B.J. Penn tók banninu fagnandi í fyrra.
I love the new PED and IV ban in the UFC. I never took an IV in my life after a weigh-in. IVs are for wimps! #BeerAndHotDogs
— BJ PENN (@bjpenndotcom) July 6, 2015
Netverjar voru ekki lengi að finna þessi ummæli BJ Penn og nú hefur þetta klassíska augnablik hér að neðan verið endurgert.
— caposa (@GrabakaHitman) May 24, 2016
UFC mun nú finna nýjan andstæðing fyrir Cole Miller en UFC 199 fer fram þann 4. júní. Enn einu sinni missir Miller af stórum bardaga en hann átti að mæta Conor McGregor í júlí 2014 áður en hann meiddist.