spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaBað Belfort um titilbardaga gegn Mark Munoz?

Bað Belfort um titilbardaga gegn Mark Munoz?

Vitor-BelfortVitor Belfort vill ekki Lyoto Machida en bað þess í stað um að mæta Mark Munoz eða Yoel Romero um bráðabirgðatitilinn í millivigt UFC. Belfort átti að mæta millivigtarmeistaranum Chris Weidman á UFC 184 áður en Weidman meiddist.

Joana Prado Belfort, eiginkona og umboðsmaður Vitor Belfort, staðfesti þetta í viðtali.

„Ég lagði til að hann berðist við Romero eða Munoz um bráðabirgðatitilinn (e. Interim Title). Stíll Weidmans er svipaður þeirra. Ég meina, þeir eru rétthentir og glímumenn. UFC sagði nei og bauð okkur Lyoto Machida en við höfnuðum því. Við töldum betra að bíða þar til í maí. Í æfingabúðunum einbeittum við okkur að bardaga gegn Weidman. Okkur þykir leitt að fresta þessu en við bíðum eftir sögulegum bardaga.“

Yoel Romero er ósigraður í UFC og sigraði Tim Kennedy eftirminnilega í síðasta bardaga sínum á UFC 178. Hann átti að mæta Ronaldo Souza á UFC 184 en Souza veiktist og bardaganum var frestað.

Mark Munoz hefur tapað þremur af síðustu fjórum bardögum og var afgreiddur í fyrstu lotu í tveimur síðustu bardögum sínum, gegn Machida og Gegard Mousasi. Það væri hreinlega fráleitt að láta Munoz fá bardaga við Belfort og enn fráleitara ef sá bardagi væri upp á titil!

Lyoto Machida tapaði spennandi titilbardaga gegn Weidman í júlí 2014 eftir sigra á Munoz og Mousasi og afgreiddi C.B. Dolloway síðan með einu sparki í desember. Bardagi milli Machida og Belfort væri spennandi viðureign en Belfort hafnaði því.

Gegard Mousasi skoraði á Vitor Belfort þegar Weidman meiddist en Belfort-hjónin hafa enn ekki svarað Mousasi. Hann átti góðan sigur gegn Dan Henderson í lok janúar og hefur þar með unnið þrjá af fimm bardögum sínum í UFC en virðist heldur ekki tilbúinn að berjast um titilinn.

Aðalbardagi UFC 184, sem fer fram 28. febrúar, verður titilbardagi í bantamvigt kvenna milli Ronda Rousey og Cat Zingano.

Það kemur á óvart að eiginkona Belfort stingi upp á Romero eða Munoz, sem virðast hvorugir tilbúnir til að berjast um millivigtartitilinn að svo stöddu. Þau eru aftur á móti svolítið sérstök þessi blessuðu hjón. Þau kynntust í brasilískum raunveruleikasjónvarpsþætti fyrir nokkrum árum og voru sannarlega ófeimin fyrir framan myndavélarnar. Það er viðeigandi að enda á þessu myndbandi af Belfort að sleikja tær tilvonandi eiginkonunnar:

https://www.youtube.com/watch?v=d5DB8Qk4WL4

spot_img
spot_img
spot_img
Oddur Freyr Þorsteinsson
Oddur Freyr Þorsteinsson
Greinahöfundur á MMAFréttir.is
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular