Sunday, September 8, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaFöstudagstopplistinn: 5 stærstu lyfjahneykslin í MMA

Föstudagstopplistinn: 5 stærstu lyfjahneykslin í MMA

Tvö stór lyfjamál hafa sprottið upp á þessu ári í MMA og virðast lyfjamál- og prófanir vera stórt vandamál í íþróttinni í dag. Að því tilefni ætlum við að skoða fimm stærstu lyfjahneykslin í MMA. Því miður hefði verið hægt að hafa listan stærri og bæta við fleiri atvikum en hér eru þau fimm stærstu að okkar mati.

sean-sherk2

5. Sean Sherk missir titilinn

Sean Sherk varði titilinn sinn á UFC 73 gegn Hermes Franca og sigraði eftir dómaraákvörðun. Sherk féll hins vegar á lyfjaprófi eftir bardagann og var umsvifalaust sviptur titlinum. Sherk þverneitaði fyrir að hafa tekið stera en Nandrolone, þekktir sterar, fundust í lyfjaprófi hans. Að sögn Sherk vissi hann ekki að fæðubótarefni keypt í næstu búð gætu innihaldið stera og var hann því (að eigin sögn) ómeðvitað á sterum. Sherk fékk eins árs keppnisbann sem var svo stytt í sex mánuði eftir áfrýjun Sherk.

wanderlei

4. Wanderlei Silva fær lífstíðarbann

Wanderlei Silva og Chael Sonnen áttu að mætast síðasta sumar í UFC 175. Fyrir bardagann átti að lyfjaprófa Wanderlei Silva og mætti aðili á vegum Nevada Athletic Commission (NAC) óvænt í bardagaklúbbinn hans til að taka úr honum sýni. Söguna þekkja flestir en Wanderlei Silva flúði – hann bókstaflega hljóp frá lyfjaprófinu. Að flýja lyfjapróf er það sama og að falla á því hjá íþróttaeftirlitum en refsing Wanderlei var töluvert meiri. Wanderlei Silva fékk lífstíðarbann frá MMA í Nevada fylki og 70.000 dollara sekt. Leiðinlegur endir á ferlinum hjá einum þekktasta MMA kappa fyrr og síðar.

belfort vitor

3. TRT meðferðin

Eldri bardagamenn á borð við Vitor Belfort, Chael Sonnen og Dan Henderson gátu fengið svo kallaða Testosterone Replacement Therapy fyrir bardaga sína þar sem testósterón magn þeirra var of lágt. Vitor Belfort var þekktasta dæmið en bardagamennirnir fengu TRT meðferð að læknisráði. Of lágt testósterón er sjaldgæft en skyndilega var haugur af eldri bardagamönnum með þetta sjaldgæfa heilkenni.

Það er ólíklegt að topp íþróttamenn eldri en þrítugt þjáist skyndilega af of lágu testósteróni og fátt sem gæti legið að baki nema misnotkun á sterum. Sem dæmi féll Vitor Belfort á lyfjaprófi árið 2006 vegna steranotkunar. Hormónakerfið fer í ójafnvægi eftir langa steranotkun og hættir líkaminn t.d. að framleiða testósterón með sama hætti og fyrir steranotkunina. Þarna voru eldri bardagamenn að fá löglega stera og gátu barist og æft sem tvítugir menn en með alla reynsluna sem þeir höfðu safnað á löngum ferli. Þessi TRT undantekning var farsi og var loksins bönnuð á síðasta ári. Nánar má lesa um TRT hér.

Anderson-Silva

2. Anderson Silva

Goðsögnin Anderson Silva féll á lyfjaprófi nú í vikunni en sterar fundust í lyfjaprófi hans. Þetta var gífurlegt áfall fyrir MMA heiminn enda töldu flestir að Silva væri einn af þeim sem myndu aldrei nota stera eða önnur ólögleg lyf. Anderson Silva heldur þó fram sakleysi sínu og á meira eftir að koma í ljós í þessu máli á næstunni.

Jon-Jones

1. Jon Jones og kókaínið

Allt við þetta mál var stórt hneyksli. Eins og flestum ætti að vera kunnugt um fundust leifar af kókaíni í lyfjaprófi Jon Jones fyrir bardaga hans gegn Daniel Cormier á UFC 182. Lyfjaprófið fór fram mánuði fyrir bardagann og voru niðurstöðurnar ekki kunngerðar fyrr en eftir bardagann. Nevada Athletic Commission gat ekki meinað Jones að keppa á UFC 182 þar sem kókaín er ekki á bannlistanum! Hefði Jones aftur á móti haft kókaín í blóðinu í keppni hefði hann fengið bann. Auk þess var prófað fyrir kókaín og önnur „street drugs“ vegna mistaka en einungis átti að kanna mögulega steranotkun. Ef allt hefði verið með feldu í lyfjaprófinu hefði kókaín neysla hans hugsanlega ekki komist upp.

UFC refsaði Jones ekkert og fékk Jones að halda beltinu. UFC studdi Jones í að leita sér hjálpar og fór hann í sólarhringsmeðferð. UFC léttþungavigtarmeistarinn tók kókaín mánuði fyrir einn sinn stærsta bardaga og hann vann með yfirburðum. Að meistarinn skuli taka kókaín mánuði fyrir bardaga, skortur á refsingu frá UFC og vanhæfni NAC gera þetta að stærsta lyfjahneyksli í sögu MMA.

Önnur stór mál: Chael Sonnen fellur tvisvar á lyfjaprófi, Tim Sylvia missir titilinn, þvagpróf Thiago Silva inniheldur dýraþvag, Josh Barnett.

spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -spot_img

Most Popular