Bardagabræðurnir Bjarki Thor Pálsson og Magnús Ingi Ingvarsson berjast á sama bardagakvöldi þann 29. apríl í FightStar bardagasamtökunum. Bardagarnir fara fram í London og eru bræðurnir ákveðnir í að koma heim með sigur.
Þeir Bjarki Thor (30 ára) og Magnús Ingi (23 ára) tóku báðir sína fyrstu bardaga fyrir fimm árum einmitt í London. Síðan þá hafa Mjölnismennirnir barist rúmlega 30 bardaga og fara núna aftur saman til London til að berjast.
Bjarki Thor (2-0) mætir Alan Procter (0-1) í sínum þriðja atvinnubardaga en þeir tveir börðust einmitt 10. desember síðastliðinn í bardaga sem endaði vægast sagt á vafasömum nótum. Bjarka var dæmdur sigur eftir að hafa fengið í sig ólöglegt hnéspark í höfuðið sem varð þess valdandi að hann rotaðist. Fram að því hafði bardaginn verið nokkuð líflegur en Bjarki var klárlega búinn að vera atkvæðameiri.
„Ég held að engum bardagamanni líði vel með sigur sem er fenginn þannig að andstæðingurinn er dæmdur úr leik fyrir ólöglegt högg. Alan er jafnframt búinn að fara mikinn á samfélagsmiðlum, tala óvirðulega til mín og láta eins og hann hafi verið rændur öruggum sigri. Það er því ekki um neitt annað að ræða en að klára þetta mál og taka af allan vafa,“ segir Bjarki Thor.
Bjarki Thor kýs að berjast í léttvigt en berst nú í veltivigt rétt eins og í síðasta bardaga. „Ég tók seinasta bardaga með tveggja vikna fyrirvara og það í þyngdarflokknum fyrir ofan þann sem ég berst vanalega í. Ég var hársbreidd frá því að klára bardagann strax í fyrstu lotu með hengingartaki en tíminn rann út áður en ég náði að klára. Fyrir utan þetta þá hafði ég mikla yfirburði allan tímann í bardaganum og það sér hver sem horfir á endursýningu af honum. Við munum aftur berjast í veltivigt en ég hef hins vegar haft nægan tíma til að undirbúa mig í þetta skiptið og ég get fullyrt að ég hef aldrei verið í betra formi en ég er í núna.”
Bjarki Thor er ekki í nokkrum vafa um hvernig bardaginn muni enda í þetta sinn. „Ég klára hann með rear naked choke hengingu tiltölulega snemma í fyrstu lotu. Ég sé hann ekki endast eina lotu með mér í þetta skiptið.”
Rétt eins og fyrri bardaginn fer bardagann fram í London í FightStar bardagasamtökunum. Bardagasambandið er ört vaxandi og Bjarki mjög ánægður með fyrirkomulagið þar. „Ég hef séð margt misjafnt síðan ég byrjaði að keppa í MMA og fyrir vikið er ég alltaf undir það búinn að það sé ekki endilega toppfagmennska hjá mótshöldurum. Það kom mér því þægilega á óvart hvað allt var faglegt og hvað þetta var flott bardagakvöld sem ég barðist á í desember. Ég hugsaði strax með mér að ég væri til í að berjast oftar þarna. Núna kemur Maggi bróðir með mér og berst líka og það gerir þetta bara ennþá skemmtilegra. Við höfum fylgst að í gegnum bardagaferil okkar beggja og það eru sönn forréttindi að geta deilt þessari reynslu með bróður mínum sem jafnframt er minn besti vinur.”
Yngri bardagabróðirinn, Magnús Ingi Ingvarsson (7-2-1), hefur ekkert barist síðan hann vann til bronsverðlauna á Evrópumótinu í Prag í fyrra. Þar barðist Magnús fjóra bardaga á fjórum dögum og kemur nú reynslunni ríkari.
Magnús er staðráðinn í að fara alla leið og mætir nú Hascen Gelezi (5-1) sem kemur frá Frakklandi. Barist er um léttvigtarbelti FightStar og er til mikils að vinna.
„Ég er ennþá að sækja mér reynslu og vinna mig upp metorðastigann en ég gæti samt alveg trúað að þetta verði síðasti áhugamannabardaginn minn. Ég veit ekki mikið um andstæðinginn minn en það breytir mig afar litlu. Ég er búinn að æfa gríðarlega vel og í því formi sem ég er núna í þá er hver sá sem mætir mér að fara að lenda í vandræðum. Ég myndi ekki vilja þurfa að mæta mér,” segir Magnús og hlær.
„Að fá tækifæri til að keppa strax um belti í fyrsta skiptið sem ég berst hjá þessum bardagasamtökum segir mér allt sem segja þarf um það hversu miklar væntingar eru gerðar til mín. Ég er með aðra höndina á þessu belti nú þegar og hver sá sem ætlar að standa í vegi fyrir því að það verði mitt verður bara að gjöra svo vel að taka afleiðingunum.”
Eins og áður segir fara bardagarnir fram þann 29. apríl og geta áhugasamir keypt miða hér. Einnig verður hægt að kaupa löglegt streymi gegn vægu gjaldi.