Sunday, April 21, 2024
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC 210

Mánudagshugleiðingar eftir UFC 210

Núna um helgina fór UFC 210 fram í Buffalo í New York fylki. Kvöldið var vægast sagt eftirminnilegt en það voru dramatískir bardagar, umdeild atvik og tveir vinsælir bardagamenn lögðu hanskana á hilluna.

Byrjum á aðalbardaga kvöldsins á milli Daniel Cormier og Anthony Johnson. Eins og varla fór framhjá neinum þá var vigtunin hin furðulegasta. Fyrst náði Cormier ekki vigt og útlit var fyrir ekki yrði barist um titilinn. Samkvæmt New York reglum mátti Cormier hins vegar vigta sig aftur, sem hann gerði rúmum tveimur mínútum síðar og var þá einhvern veginn búinn að losa sig við 1,2 pund. Annað hvort var troðið stólpípu upp í rassgatið á honum á methraða eða eitthvað annað var í gangi, einhver handklæða töfrabrögð. Látum það liggja á milli hluta.

Bardaginn sjálfur kom mörgum á óvart en flestir bjuggust við að Johnson myndi reyna að halda sig frá Cormier og koma inn vel völdum handsprengjum. Þess í stað notaði Johnson glímuna og reyndi þar með að sigra Cormier þar sem hans styrkur lág. Það reyndust vera stór mistök eins og við mátti búast en hvernig datt honum þetta í hug? Johnson segist sjálfur ekki vita það en kannski var Johnson ekki nægilega með hugann við efnið. Eins og fram kom í viðtali eftir bardagann ákvað Johnson að leggja hanskana á hilluna aðeins 33 ára gamall.

Það verður mikil eftirsjá af Johnson. Hann er ennþá þriðji eða fjórði besti bardagamaður í heimi í léttþungavigt og gæti sennilega verið nokkuð ofarlega í þungavigt að auki. Hann er einn af örfáum sem vakti óttablandna virðingu og allir vildu sjá hann berjast.

Nú þegar Jon Jones er að verða laus allra mála í sumar er augljóst hvert Cormier stefnir. Með fullri virðingu fyrir Jimi Manuwa, sem annars væri næstur í röðinni, er Jones maðurinn í léttþungavigt. Við viljum fá Jon Jones og við viljum fá hann sem fyrst í titilbardaga. Krossleggið því fingur og vonið að Jones ræni ekki banka eða eitthvað álíka heimskulegt. Væri svo ekki gaman ef Jones myndi sigra Cormier og Alexander Gustafsson myndi sigra Glover Teixeira og þeir tveir myndu mætast aftur? Það er reyndar sjaldan sem slíkir draumórar rætast í MMA.

Að öðru. Er ekki frábært að reglunni um liggjandi mann var breytt svo enginn misskilningur gæti orðið? Tvær hendur í gólfi, maðurinn er liggjandi, engin hné í höfuð og málið dautt. Það var sorglegt að horfa á atburðarrásina í bardaga Chris Weidman og Gegard Mousasi. Bardaginn hafði verið frábær, Weidman tók fyrstu lotuna örugglega með nokkrum fellum en Mousasi var að snúa þessu við í lotu tvö. Það sem er dapurt er að dómarinn gerir mistök og allir þurfa að þjást fyrir það.

Eitt af því loðna í þessu er að hnéð sem var talið ólöglegt var skoðað á myndbandi, sem er ólöglegt í New York og í kjölfarið var það svo metið löglegt. Hmmm? Mousasi var gefinn sigurinn og Weidman þarf að sætta sig við þriðja tapið í röð. Að minnsta kosti á pappírunum. Þessi bardagi ætti að verða endurtekinn, vonandi sem allra fyrst en Dana White virðist ekki á sama máli. Hvernig væri annars að hafa regluna um liggjandi mann þannig að hné þarf að snerta gólfið, hendi eða hendur í gólf er greinilega ekki alveg málið.

Anthony Johnson var ekki sá eini sem hætti þetta kvöld. Patrick Coté tilkynnti að bardagi hans við Thiago Alves hefði verið hans síðasti í viðtali eftir bardagann. Coté er að hætta á góðum tíma, 37 ára gamall eftir 21 bardaga í UFC og er þegar með starf sem greinandi og lýsir fyrir UFC í Kanada.

Hans fyrsti bardagi í UFC var eftirminnilegur. Það var á UFC 50 þegar hann mætti Tito Ortiz í léttþungavigt. Ortiz átti að berjast við Guy Mezger sem þurfti að hætta vð bardagann með stuttum fyrirvara. Coté samþykkti að færast úr minni bardaga í aðalbardaga á móti Ortiz sem er ótrúlega hugað í hans fyrsta bardaga í UFC. Coté tapaði en stóð sig vel, kýldi Ortiz niður í 1. lotu og fór allar loturnar. Flottur náungi hann Patrick Coté.

Ýmislegt annað markvert gerðist þetta kvöld. Cynthia Calvillo nældi sér í annan sannfærandi sigur og er á góðri leið með að verða stjarna. Oliveira bölvunin heldur áfram hjá Will Brooks. Þessi frammistaða frá Charles Oliveira sýnir að léttvigt er klárlega hans þyngdarflokkur enda virkaði hann stærri og sterkari en Brooks. Versta er að Oliveira langar að fara aftur niður í fjaðurvigt sem er bilun miðað við hve oft honum mistókst að ná vigt þar.

Kamaru Usman sýndi að hann er mikil ógn í veltivigt og gæti hæglega orðið framtíðar andstæðingur okkar manns. Svo snéri Myles Jury aftur eftir langa fjarveru og tvö töp. Það var gaman að sjá hann næla sér í flottan sigur. Harðasti gaur kvöldsins var sennilega Patrick Cummins sem var margsinnis vankaður gegn Jan Blachowicz en þraukaði og fór allar þrjár loturnar. Að lokum vann Cummins ótrúlegan sigur á stigum.

Gregor Gillespie bauð upp á 21 sekúndna rothögg á heimavelli sem er þess virði að kíkja á á Fight Pass fyrir þá sem misstu af. Ofan á allt þetta var markverð frumraun í fyrsta bardaga kvöldsins. Hinn efnilegi og ósigraði Magomed Bibulatov frá Rússlandi sýndi að hann getur orðið raunveruleg ógn við Demetrious Johnson eftir kannski ár eða svo. Munið þetta nafn.

Næsta UFC fer fram á laugardaginn þegar Demetrious Johnson mætir Wilson Reis á UFC on FOX 24. Að auki berst Ronaldo ‘Jacare’ Souza við Robert Whittaker í frábærum millivigtarbardaga.

RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular