Monday, April 22, 2024
HomeErlentKamaru Usman vill frekar mæta Neil Magny en Gunnari Nelson

Kamaru Usman vill frekar mæta Neil Magny en Gunnari Nelson

Kamaru Usman sigraði Sean Strickland á UFC 210 um helgina. Eftir bardagann óskaði hann eftir bardaga gegn Neil Magny en var minna spenntur fyrir bardaga gegn Gunnari Nelson.

Kamaru Usman hefur unnið alla fimm bardaga sín veltivigt í UFC. Bardaginn á laugardaginn var hluti af upphitunarbardögunum á UFC 210 og sigraði Usman eftir einróma dómaraákvörðun.

Í viðtalinu í búrinu óskaði hann eftir bardaga gegn Neil Magny. Magny er í 6. sæti á styrkleikalista UFC á meðan Usman er í því 11. Hann ræddi nánar við fjölmiðla eftir bardagann þar sem hann fór betur yfir ástæðuna fyrir því hvers vegna hann vildi mæta Magny.

Usman talaði um að hann hefði einnig viljað mæta Dong Hyun Kim áður en hann var bókaður gegn Colby Covington í vikunni. Usman var þó ekki eins spenntur fyrir bardaga gegn Gunnari líkt og gegn Magny eða Kim.

„Það væri líka áhugaverður bardagi en Gunnar er ekki með stílinn sem gerir áhorfendur spennta. Hann mun reyna að glíma við mig svo ég mun þurfa að taka hann niður, halda honum niðri og lúskra á honum. Mig langar ekki að vera steyptur í sama mót, aðdáendur halda að ég sé bara glímumaður sem tekur menn niður og liggur ofan á þeim,“ sagði Usman.

„Ég vil einhvern sem mun standa með mér og hefur þetta fjölbreytt. Þess vegna vil ég Neil Magny. Hann er með góðar fellur, góður í gólfinu og góður standandi. Gunnar Nelson er gólfglímumaður. Ég þyrfti því að taka hann niður og vinna hann í gólfinu. Ég vil alla sem eru fyrir ofan mig á styrkleikalistanum en vil líka skemmtilega bardaga og UFC eru góðir að raða saman þannig bardögum.“

Usman hefur áður sagt að hann sé besti glímumaðurinn í veltivigtinni og óskaði eftir bardaga við Demian Maia í fyrra. Það fannst honum kjörið tækifæri til að sýna hversu góður glímumaður hann er. Það kemur því að vissu leyti á óvart að Usman vilji berjast við góða glímumenn eins og Demian Maia og Dong Hyun Kim en er ekki eins spenntur fyrir bardaga gegn Gunnari.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular