Birgir Örn Tómasson hefur tekið skrefið í atvinnumennsku og berst sinn fyrsta atvinnubardaga í febrúar.
Birgir var 3-2 sem áhugamaður og keppti síðast á Evrópumótinu í MMA í nóvember. Þar féll hann úr leik í fyrstu umferð og vildi Birgir komast strax aftur í búrið eftir EM. Hann fær nú ósk sína uppfyllta og fær alvöru bardaga á Shinobi.
Bardaginn fer fram á Shinobi 10 bardagakvöldinu í Liverpool. Sama kvöld ver Bjarki Ómarsson fjaðurvigtartitil sinn í Shinobi en vonir standa til að fleiri Íslendingar fái bardaga þetta kvöld.
Birgir Örn mætir Anthony O’Connor í léttvigt en O’Connor er 1-0 sem atvinnumaður. Nafnið er eflaust einhverjum bardagaaðdáendum kunnugt enda sigraði Bjarki Þór Pálsson hann í september 2014.
Shinobi 10 fer fram þann 25. febrúar í Liverpool í Olympia höllinni.