Birgir Örn Tómasson keppti á Evrópumótinu í MMA á dögunum. Birgir datt út í fyrstu umferð var afar svekktur eftir bardagann.
Birgir keppti í veltivigt og tapaði fyrir Attila Cziffra frá Ungverjalandi eftir tæknilegt rothögg. Birgir var að stjórna bardaganum allan tímann þar til hann fékk háspark í sig og eftir nokkur högg í viðbót frá Ungverjanum var bardaginn stöðvaður.
„Ég vankaðist. Datt aðeins út, hefði allan tímann viljað halda áfram en andstæðingurinn náði að nýta tækifærið og gaf mér ekki færi á að jafna mig. Ég er samt nokkuð viss um að ég hefði náð að snúa stöðunni við ef dómarinn hefði ekki stoppað þetta,“ segir Birgir um bardagann.
„Ég var illa svekktur með að hafa klúðrað þessu svona, fannst ég vera betri maðurinn og að ég hefði átt að sigra þennan bardaga. En ég hef átt það til að vera með hendurnar of neðarlega og nú varð það mér að falli, ætla ekki að klikka á því aftur. Var mögulega aðeins of öruggur með mig þegar leið á lotuna, andstæðingurinn var svo smeykur við mig, taldi mig alveg vera með þetta.“
Birgir hefur glímt við nokkur meiðsli á árinu og þá var hann frá æfingum í mánuð fram að EM vegna veikinda. Undirbúningur hans var því ekki eins og best verður á kosið en var það eitthvað sem Birgir var að hugsa um í aðdraganda bardagans?
„Ég var ennþá veikur þegar við fórum út og þegar ég gekk inn í búrið. Ég fann það í upphituninni hvað ég var í slæmu formi. Hugsaði með mér að ég þyrfti að spara orkuna og vera rólegur. Ég gæti trúað að ég hefði verið búinn að klára bardagann fyrr í lotunni hefði ég verið á fullum tanki.“
Birgir stundar verkfræðinám við Háskólann í Reykjavík meðfram bardagaferlinum og er spenntur fyrir því að komast aftur í búrið sem fyrst. Utan þess eyðir hann miklum tíma með strákunum sínum tveimur, Adam og Aroni, og aflar sér tekna með einkaþjálfun í Muay Thai.
Birgir er meðvitaður um sína veikleika sem er glíman. En er erfitt að sinna styrkleikunum á meðan maður er að vinna í veikleikunum? „Mér finnst ég hafa staðnað, mögulega ryðgað aðeins á mínu sterkasta sviði sem er standandi. En svo smellur þetta allt saman fljótlega. Ætla að setja mér nýtt æfingaprógram þar sem ég næ að bæta mig á öllum vígstöðum.“
„Mig langar helst að fara beint í atvinnumennskuna. Ég er allaveganna mjög spenntur fyrir því að komast aftur í búrið. Er að vinna í að verða góður í glímunni eins og komið hefur fram og þá fer ég á allt annað level sem MMA bardagamaður, betri en nokkurn tímann,“ segir Birgir að lokum.