Friday, April 19, 2024
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir TUF 24 Finale

Mánudagshugleiðingar eftir TUF 24 Finale

dj-elliot

Það fór kannski framhjá einhverjum en það var titilbardagi um helgina. Bardaginn var sögulega mikilvægur en Demetrious Johnson er með sigrinum kominn í hóp með mönnum eins og Georges St. Pierre.

Eftir 24 seríur af The Ultimate Fighter, og reyndar tiu alþjóðlegar seríur til viðbótar, er komin talsverð þreyta í MMA aðdáendur. Flestir eru hættir að horfa á þetta, einkum þar sem þættirnir eru alltaf eins. Alltaf sama húsið, sama nöldrið og sveittar æfingar. Það hefur verið reynt að koma með nýjungar eins og þegar American Top Team var látið mæta Blackzilians í fyrra en það virkaði ekki.

Núna voru allir þátttakendur meistarar í minni bardagasamtökum sem var ágætlega skemmtileg hugmynd. Serían bar heitið „Tournament of Champions“, 16 meistarar börðust um tækifæri til að skora á meistara meistaranna, Demetrious ‘Mighty Mouse’ Johnson. Þessi sería þótti reyndar nokkuð góð þar sem bardagarnir voru flestir hressir og skemmtilegir.

MMA: TUF Tournament of Champions-Johnson vs Elliott

Að lokum var það Tim Elliot sem sigraði fjóra andstæðinga og tryggði sér titilbardaga. Elliot var áberandi bestur í seríunni en dyggir UFC aðdáendur ættu að muna eftir veru hans í UFC árin 2012 til 2015. Enginn gaf Elliot möguleika gegn máttugu músinni en hann kom mörgum á óvart og var ekki langt frá því að klára bardagann í fyrstu lotu. Elliot sýndi að hann á heima í UFC og fær eflaust fleiri bardaga á næstunni.

Demetrious Johnson er núna búinn að verja beltið sitt níu sinnum sem er einu meira en Jon Jones náði, jafn mikið og Georges St. Pierre náði og aðeins einni vörn frá meti Anderson Silva. Þrátt fyrir þetta afrek og vera almennt talinn besti (eða næstbesti) bardagamaður í heimi fær Johnson ekki þá athygli sem hann á skilið. Næst má búast við titilvörn frá hönum gegn Joseph Benevidez en svo væri ekki leiðinlegt að sjá hann reyna aftur við Dominick Cruz. Það má láta sig dreyma.

Bardagi Henry Cejudo og Joseph Benevidez var reyndar það góður og hnífjafn að best væri ef þeir myndu endurtaka leikinn en í fimm lotu bardaga. Það má deila um mjög mikilvægt stig sem dregið var frá Cejudo og þar sem Benevidez hefur þegar tapað tvisvar fyrir meistaranum liggur ekkert á þriðja bardaganum. Látum Johnson bara berjast við Jussier Formiga á meðan.

MMA: TUF Tournament of Champions-Ellenberger vs Masvidal

Þetta kvöld voru nokkrir aðrir markverðir bardagar. Jorge Masvidal sigraði Jake Ellenberger á furðulegan hátt. Hann virtist vera á leiðinni að rota hann þegar Ellenberger flækti tánni í búrið sem olli því að bardaginn var stöðvaður á furðulegan hátt. Ætli Ellenberger hafi ekki fengið sér aðeins í tána eftir þessa vitleysu?

Sara McMann nældi sér líka í mikilvægan sigur gegn Alexis Davis. Hún vann bardagann með „arm-triangle“ sem er sérstaklega vel af sér vikið þar sem Davis er með svart belti í jiu-jitsu.

Íslandsvinurinn Ryan Hall sigraði að auki Gray Maynard fyrr um kvöldið. Það er áhugavert að sjá Hall berjast. Sumum kann að finnast stíllinn pirrandi á að horfa en hann er öðruvísi og það er andstæðingsins að leysa úr þrautinni. Ég er í það minnsta forvitinn að sjá hvað hann kemst langt upp stigann í UFC.

Næstu helgi fara tvö UFC kvöld fram. Á föstudeginum fer fram lítið bardagakvöld í Albany í New York en á laugardeginum fer UFC 206 fram í Toronto í Kanada.

RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular