spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaBjarki Ómarsson: Skil núna hvernig ég á að undirbúa mig fyrir bardaga

Bjarki Ómarsson: Skil núna hvernig ég á að undirbúa mig fyrir bardaga

bjarki omars shinobiBjarki Ómarsson sigraði með tilþrifum MMA bardaga sinn um síðustu helgi. Við spjölluðum við Bjarka um bardagann stutta, spörkin, framhaldið og fleira.

Bjarki (6-4) sigraði eftir tvö glæsileg spörk og vann með tæknilegu rothöggi eftir aðeins 19 sekúndur. Bjarki fagnaði vel og innilega í búrinu eftir sigurinn og stökk meðal annars upp á búrið. „Ég var mjög ánægður þegar ég vann. Ég var reyndar búinn að plana að ef ég myndi klára hann þá myndi ég ekki fagna mikið en ég bara missti mig. Ég fattaði eftir á að ég ætlaði að vera rólegur en það er ekkert hægt að plana svona,“ segir Bjarki.

Þetta er í fyrsta sinn sem Bjarki klárar bardaga með höggum standandi. Hann hafði hingað til klárað bardaga með uppgjafartaki eða höggum í gólfinu. „Það var öðruvísi að klára þetta svona. Síðast þegar ég vann var það líka eftir tæknilegt rothögg en það var í 3. lotu og í gólfinu. Þetta var allt öðruvísi. Það er erfitt að lýsa því þar sem þetta gerðist allt svo hratt.“

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Fyrir bardagann hafði Bjarki lýst því yfir að hann væri að undirbúa sig fyrir erfitt stríð. Það reyndist ekki vera enda var bardaginn búinn eftir aðeins 19 sekúndur. „Ég var búinn að undirbúa mig fyrir þrjár mjög erfiðar lotur og svo kláraðist þetta bara strax. Ég fékk smá svona ‘is that it?’ tilfinningu þegar ég var kominn aftur í upphitunarherbergið. En það er eiginlega bara lúxus vandamál.“

Á leið sinni í búrið gekk Bjarki undir laginu New Level með A$AP Ferg. Það var viðeigandi enda er Bjarki á því að hann sé kominn á næsta getustig. „Mér finnst ég vera kominn á nýtt level og þess vegna ákvað ég að nota þetta inngöngulag. Þetta nýja level er samt að miklu leyti í hausnum á mér. Mér finnst ég skilja núna hvernig ég á að undirbúa mig fyrir bardaga og held ég hafi bara þroskast á þessum tíu bardögum sem ég hef tekið.“

„Ég hef lengi verið góður í svona spörkum en núna er ég farinn að klára bardaga með svona spörkum. Ég er búinn að vera að gera þetta svo oft og tímasetningin er orðin betri, þess vegna er ég núna farinn að klára bardaga með svona spörkum. Þannig er það með allt. Ef þú gerir hlutina oft í þessu sporti að þá verðuru betri í því, svo einfalt er það. Einnig er styrkurinn líka orðinn meiri en hann var og þá verða spörkin kraftmeiri.“

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Bardaginn fór fram í Shinobi War bardagasamtökunum og voru þeir að vonum ánægðir með Bjarka. „Ég fæ titilbardaga á næsta bardagakvöldi Shinobi sem er 30. júlí. Ég ætla að keppa þar og stefni svo á að keppa á EM eftir það. Svo fer ég í atvinnumennskuna og þá byrjar ferillinn fyrir alvöru.“

Einhver lokaorð? „Ég vil þakka Mjölni, þjálfurunum mínum, æfingafélögum, fjölskyldu og vinum, Ginger veitingastaðnum, Jarðböðunum við Mývatn og Jaco.“

Hér að neðan má sjá bardagann í heild sinni.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular