spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaBjarki Péturs: Þurfti að halda inn í mér gleðitárunum

Bjarki Péturs: Þurfti að halda inn í mér gleðitárunum

bjarki pétursson
Mynd: Sóllilja Baltasardóttir.

Bjarki Pétursson vann sinn fyrsta MMA bardaga á Shinobi bardagakvöldinu í Liverpool í gær. Bjarki vann Joey Dakin eftir dómaraákvörðun og var hann eðlilega mjög ánægður þegar við heyrðum í honum í dag.

Bjarki var með yfirhöndina nær allan bardagann og var lítill vafi á hvernig dómararnir myndu skora bardagann í lokin.

Bjarki virkaði yfirvegaður og rólegur þrátt fyrir að þetta væri aðeins hans fyrsti MMA bardagi. En hvernig var upplifunin og var eitthvað sem kom á óvart?

„Ég bjóst við að vera meira stressaður en mér leið bara ógeðslega vel. Það var allt mjög skýrt og mér leið fullkomlega. Mér leið eins og ég hafi gert þetta oft áður,“ segir Bjarki.

Á milli lota mátti sjá Bjarka brosa og leið honum greinilega vel í búrinu. „Ég var stressaður um daginn en þegar ég var að labba inn í búrið leið mér svo vel. Ég þurfti að halda inn í mér gleðitárunum þegar ég var að labba inn. Sigurinn að vera að gera þetta og kominn þarna út, ég bara gat ekki hætt að brosa. Þetta var alveg geðveikt, gleði allan tímann.“

Andstæðingur Bjarka náði nokkrum góðum lágspörkum í vinstra læri Bjarka og finnur hann vel fyrir því í dag. „Það er ekkert gaman að vera með löppina í hakki í dag, þetta voru öflug spörk. Maður er vanur að vera að sparra með legghlýfar á æfingum og þá er maður of kærulaus að éta höggin bara. Ég þarf að vinna í því en þetta voru öflug spörk, steruð spörk. Ég get ekki alveg beygt fótinn í dag, maður er vel bólginn og haltur. Ég hægi svolítið á ferðinni,“ segir Bjarki en þegar við ræddum við hann var liðið á heimleið.

Dakin leit út fyrir að vera ansi hraustur og fann Bjarki fyrir styrknum hans. „Það er eiginlega eins gott fyrir hann að það voru engin lyfjapróf, hann hefði aldrei sloppið í gegnum það,“ segir Bjarki og hlær. „Ég fann fyrir því í byrjun að ef höggin hans myndu lenda myndi það vera slæmt. En ég fann um leið og ég byrjaði að glíma við hann hvað hann andaði örar. Ég heyrði það á andardrættinum að hann væri búinn. Ég sá mynd af honum fyrir og vissi hvað ég væri að fara út í þannig að ég vissi að hann yrði fljótt þreyttur, vöðvarnir taka svo mikið súrefni.“

Bjarki var að vonum í skýjunum með sigurinn og þessa reynslu að hafa farið í gegnum þennan bardaga. Sigurtilfinningin var frábær og er Bjarki mörgum þakklátur. „Að finna allan þennan stuðning gaf mér rosalegan kraft og stolt! Vil nota tækifærið og þakka öllu þessu frábæra fólki í kringum mig, liðsfélögunum, þjálfurunum, öllum í Mjölni, vinum, fjölskyldu og öllum sem sýndu mér stuðning. Og svo styrktaraðilunum mínum Sportvörur, Ginger og Perform,“ segir Bjarki að lokum.

bjarki pétursson
Mynd: Sóllilja Baltasardóttir.
spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular