Saturday, May 18, 2024
HomeForsíðaBjarki Þór mætir Alan Procter aftur í London

Bjarki Þór mætir Alan Procter aftur í London

Mynd: Hallmar Freyr.

Bjarki Þór Pálsson mun berjast sinn þriðja atvinnubardaga í London í apríl. Bjarki mætir þá Alan Procter á ný eftir að bardagi þeirra í desember endaði með umdeildum hætti.

Mjölnismaðurinn Bjarki Þór barðist við Alan Procter á FightStar 8 bardagakvöldinu í London í desember síðastliðinn. Eftir að hafa stjórnað bardaganum nær allan tímann fékk Bjarki ólöglegt hnéspark í höfuðið í 3. lotu. Procter var því dæmdur úr leik og vann Bjarki Þór bardagann.

Myndband: Bardagi Bjarka Þórs og Alan Procter

Ýmis orðaskipti áttu sér stað á samfélagsmiðlum eftir bardagann og í viðtali við MMA Fréttir sagðist Procter vera til í að mæta Bjarka aftur. Það verður að veruleika þann 22. apríl í Brentford Fountain Leisure Centre höllinni í London.

„Ég var gróflega ósáttur við það hvernig seinasti bardagi endaði. Það er enginn bardagamaður sáttur við að sigra bardaga út af ólöglegu höggi andstæðingsins. Ég var með mikla yfirburði og var nálægt því að klára bardagann í fyrstu lotu með góðu hengingartaki en því miður þá var það bara svo seint í lotunni að bjallan bjargaði honum. Hún mun ekki gera það í apríl“, segir Bjarki Þór í fréttatilkynningu.

„Ég vil þó taka það fram að ég er ofboðslega ánægður með það að hafa fengið þetta rematch. Það sýnir drengskap hjá Alan Procter að vilja gera þetta aftur og þó svo að ýmis orð hafi fallið frá því að seinasta bardaga lauk þá virði ég þetta við hann og mun án vafa taka í höndina á honum að bardaga loknum.“

Sjá einnig: Andstæðingur Bjarka – Án hnésparksins hefði ég klárað bardagann hvort sem er

Bjarki Þór er 2-0 sem atvinnumaður en þrátt fyrir að vera ósigraður er hann ekki sáttur með byrjunina á atvinnumannaferlinum.

„Ég hef gríðarlegan metnað og trú á sjálfum mér. Ég hef æft með mörgum öflugum, heimsþekktum, bardagamönnum og hef ekki upplifað mig sem neinn eftirbát þeirra. Fyrstu tveir atvinnubardagarnir sýndu engan veginn hvað í mér býr. Fyrsti bardaginn var bara brandari. Andstæðingurinn minn lét ekki sjá sig og það var eins og það hefði bara einhver jólasveinn verið fenginn úr salnum til að fara á móti mér. Ég hálf vorkenndi honum og notaði bara einföldustu og skaðminnstu leiðina til að ná taki á honum og klára bardagann með uppgjafartaki. Það tók aðeins 23 sekúndur. Hinn bardaginn endaði svo með því að ég át ólöglegt hné og steinrotaðist. Ég get ekki mögulega verið sáttur með þetta þó svo að ég sé ósigraður enn á pappírunum. Ég vil fá að sýna mitt rétta andlit og það mun gerast 22. apríl.“

Samningaviðræður eru í gangi um beina útsendingu frá bardagakvöldinu í íslensku sjónvarpi og einnig eru líkur á að fleiri Íslendingar muni berjast þar. Þetta verður nánar tilkynnt þegar það liggur ljóst fyrir.

Mynd: Sóllilja Baltasardóttir.
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular