0

Björn Lúkas: Ætti að verða góður bardagi

Björn Lúkas Haraldsson stígur í búrið í fyrsta sinn í langan tíma á laugardaginn. Björn keppir þá á fyrsta bardagakvöldi Reign MMA en bardaginn fer fram í Dubai.

Bardagakvöldið fer fram á húsþaki á skýjaklúfri í Dubai en allir bardagar kvöldsins eru áhugamannabardagar. Á bardagakvöldinu mætast bardagamenn frá SBG Ireland gegn völdum bardagamönnum af MMA Poland Association. Björn Lúkas æfir í Mjölni en Mjölnir og SBG hafa lengi átt í farsælu samstarfi. Luka Jeljic, yfirþjálfari MMA liðsins í Mjölni, fann bardagann fyrir Björn en hann er eini Íslendingurinn sem keppir á kvöldinu.

Björn Lúkas (6-1) hefur ekki barist síðan hann tók silfur á HM áhugamanna í nóvember 2017 í Barein. Björn ætlaði að gerast atvinnumaður en hefur ekki enn fengið atvinnubardaga. „Þegar Luka bauð mér bardagann fyrst þá spurði ég stax hvort að þetta væri ekki örugglega pro bardagi. Þegar hann sagði að þetta væri amateur hafnaði ég því fyrst þar sem ég vildi bara taka pro bardaga. En svo bætti hann við að þetta væri í Dubai þá gat ég ekki sagt nei við svona tækifæri að ferðast aftur til Mið-Austurlanda,“ segir Björn.

Þó langt sé síðan Björn barðist síðast hefur hann ekki setið auðum höndum. „Í stuttu máli er ég búinn að vera að æfa alveg helling. Ég er búinn að bæta við meiri drill tíma og er líka búinn að vera hjá Ingu Birnu í styrktarþjálfun. Ég er líka búinn að vera að vinna mikið í wrestlinginu og hnefaleikum. Það ætti að sjást í bardaganum.“

Mjölnir er í samstarfi við Háskólann í Reykjavík og tók íþróttafræðideild skólans keppnisliðin í ýmsar mælingar. Þar gat Björn Lúkas séð bætingar sínar í þrek og styrk og er styrktarþjálfunin því að mælast vel. Æfingarnar síðustu mánuði hafa gengið sinn vanagang fyrir utan þegar John Kavanagh kom hingað til lands með haug af bardagamönnum. „Þetta er búið að vera líkt og venjulega en þegar liðið kom hingað með John var vel tekið á því.“

Björn mætir Micheł Pezda frá Póllandi en Pezda er 3-1 samkvæmt Tapology. Bardagasamtökin Reign MMA segja hann hins vegar vera 15-6 og er því nokkur reynslumunur á þeim. Björn er lítið að spá í mótherjanum og veit lítið um hann. „Veit voða lítið en veit að hann er harður. Hann er svona basic boxari og BJJ gæji. Þetta er sterkur andstæðingur þannig að ég er ekki viss hvernig þetta mun fara en ætti að vera góður bardagi.“

Bardaginn fer fram á laugardaginn en Björn Lúkas er í næstsíðasta bardaga kvöldsins. Að sögn Reign MMA mun streymi vera sent út frá bardagakvöldinu en nánari upplýsingar um streymi koma síðar.

Pétur Marinó Jónsson

Comments

comments

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Stöð 2 Sport -MMA fíkill

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.