Wednesday, April 24, 2024
HomeErlentBjörn Lúkas: Kemur ekki til greina að taka annan áhugamannabardaga nema hann...

Björn Lúkas: Kemur ekki til greina að taka annan áhugamannabardaga nema hann sé á tunglinu

Björn Lúkas Haraldsson náði glæsilegum sigri á fyrsta bardagakvöldi Reign MMA fyrr í mánuðinum. Bardaginn fór fram í Dubai og er óhætt að segja að öll helgin hafi verið sérstök enda barðist hann utandyra og var klóraður af tígrisdýri.

Þetta var fyrsti bardagi Björns síðan hann tók silfur á HM áhugamanna árið 2017. Björn hefur verið í leit að bardaga síðan þá en ekkert gekk lengi vel. Upphaflega ætlaði Björn að fara í atvinnumennsku og hafnaði bardaganum í Dubai þegar hann kom fyrst á borðið til hans. Eftir að hafa hugsað málið ákvað hann þó að slá til enda ekki á hverjum degi sem Íslendingur fær tækifæri á að berjast í Dubai.

Björn sigraði Michel Pezda með armlás í 1. lotu eftir að hafa stjórnað bardaganum frá upphafi til enda. „Þetta var ekkert öðruvísi en venjulega. Ég fann fyrir sömu spennu sem ég fæ fyrir að keppa þó það hafi verið langt síðan ég keppti í MMA,“ segir Björn.

Bardaginn fór fram utandyra á þaki á skýjaklúfri í Dubai og mátti sjá á myndbandi af bardaganum að það var smá gustur á toppnum.

„Það var smá vindur þarna. Það var rugl heitt þarna en samt svo þurrt. Um leið og ég steig inn í hringinn var ég strax orðinn þurr þrátt fyrir að hafa tekið góða upphitun og verið vel sveittur. Það var mjög sérstök tilfinning en væri helst til í að keppa næst inni ef það er möguleiki.“

Þar sem hitastigið er hátt í Dubai var Björn ekki með neina peysu með sér og gekk inn í hringinn í UFC Reebok peysu. „Mig vantaði bara einhverja peysu til að vera heitur fyrir bardagann en tók sjálfur ekki peysu. Snillingurinn hann Luka [Jelcic, þjálfari] rétti mér þá þessa peysu og sagði að John [Kavanagh] ætti hana en það væri í lagi að ég myndi nota hana.“

Flestir MMA bardagar í dag fara fram í búri en þetta bardagakvöld var háð í boxhring. „Þegar ég var að æfa þá var ég mjög hrifinn af hringnum þar sem það er hægt að fá andstæðinginn til að hreyfa sig á ákveðinn hátt og festa hann í horninu en í bardaganum sjálfum þá var ég ekki á sömu nótum. Þótt að það voru fimm reipi í stað fjögurra og mun strektara á þeim þá tókst okkur samt að detta úr hringnum og endurræsa þurfti bardagann í miðjunni. Ég er mun hrifnari af því að leyfa bardaganum að halda áfram náttúrulega í stað þess að stoppa og byrja aftur þótt að hann sé leiðinlegur og verið að halda upp við búrið eða tefja.“

Það mátti sjá að ekki voru margir áhorfendur á staðnum þó öllu hafi verið til tjaldað á bardagakvöldinu. „Nei það voru ekki margir þarna og ég skil það vel. Flestir sem mættu þarna voru búnir að horfa á hestahlaup í 12 tíma áður en þeir komu. En þegar ég labbaði inn í hringinn sá ég einn áberandi stóran Íslending meðal áhorfenda og það var Hafþór Júlíus. Gaman að vita að Fjallið hafi mætt til að styðja mig.“

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Björn heimsækir Mið-Austurlönd en hann keppti á HM 2017 sem fór fram í Barein. Björn segir að þetta ferðalag í Dubai hafi verið mögnuð reynsla. „Þetta var svakalegt að vera þarna og bardaginn sjálfur er ekki einu sinni topp 3 það sem gerðist þarna. Ég sá apa keyra um þarna og skoðaði stóra ketti í einkadýragarði hjá sjeik þarna.“

Heimsóknin í dýragarðinn var svo sannarlega eftirminnileg en hefði getað endað ansi illa. „Hann er með dýragarð þarna í frammgarðinum þar sem hann býr eins og það væri eðlilegur hlutur að hafa 10 apa sem keyrðu sjálfir um og svo 20 allskonar stóra ketti eins og ljón, hvít ljón, tígristýr, hvít tígristýr, tigon og svo auðvitað ligerar.“

„Það var þarna liger, sem sagt pabbinn ljón og mamman tígristýr, sem klórar mig þegar ég fór aðeins of nálægt búrinu. Gaurinn sagði samt að dýrið myndi ekki ná í mig þar sem ég var. Orð geta ekki lýst því hvernig mér leið. Ég elska horror myndir, teygjustökk, rússíbana og allt svona adrenalín dæmi en þetta toppaði allt með alveg helling. Mig verkjar enn í höndina eftir klórið,“ sagði Björn Lúkas í síðustu viku þegar við ræddum við hann.

Framundan hjá Birni Lúkasi er svo ekkert annað en atvinnubardagi. „Það kemur ekki til greina að taka annan áhugamanna bardaga nema hann sé á tunglinu. Ég er mjög bjartsýnn á að fá fleiri tækifæri eftir þetta. Það eru fullt af hörðum einstaklingum sem eru pottþétt til í að keppa við mig. Ferillinn er að byrja fyrst núna þannig að ég held að núna fari allt að gerast.“

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular