Björn Lúkas Haraldsson hefur vakið athygli fyrir frammistöðu sína á Heimsmeistaramóti áhugamanna í MMA sem fram fer í Barein um þessar mundir. Björn Lúkas var boðaður á blaðamannafund í gær sem var ansi sérstakur.
Björn Lúkas hefur farið hamförum á mótinu á undanförum dögum og klárað alla þrjá bardaga sína í 1. lotu. Hann mætir Ástralanum Joseph Luciano í undanúrslitum mótsins í dag.
Eftir sigurinn í gær var Björn boðaður á blaðamannafund. Björn hefur verið rólegur og yfirvegaður alla vikuna en það sama var ekki hægt að segja um gærdaginn þegar á blaðamannafundinn var komið.
„Þetta er í fyrsta sinn í ferðinni sem ég sé hann stressaðan. Þetta var mjög grillaður blaðamannafundur sem fór að mestu fram á arabísku. Björn Lúkas svaraði bara einhverjum tveimur spurningum og var aðallega spurður út í hvernig hann fílaði Barein. Björn lýsti yfir þakklæti sínu fyrir að hafa verið boðið á mótið,“ sagði Hrólfur Ólafsson sem er með í för sem þjálfari.
Að sögn Björns svitnaði hann í lófunum á blaðamannafundinum og fannst þetta mun erfiðara en að stíga í búrið og berjast.
Undanúrslitin fara fram í dag og berst Björn Lúkas í búri 1. Búr 1 er sýnt á Bahrain Sports 2 rásinni í Bahrain TV smáforritinu en Björn Lúkas berst um 13-14 leytið á íslenskum tíma. Einnig er hægt að fylgjast með framgangi mála á Snapchat-i Mjölnis (mjolnirmma).