Thursday, April 18, 2024
HomeForsíðaBjörn Þorleifur: Vil keppa aftur í MMA sem fyrst

Björn Þorleifur: Vil keppa aftur í MMA sem fyrst

Björn Þorleifur Þorleifsson
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Björn Þorleifur Þorleifsson keppti sína fyrstu MMA bardaga á Evrópumótinu í Prag á dögunum. Björn kemur reynslunni ríkari eftir tvö bardaga á mótinu og er tilbúinn í næstu skref.

„Það að keppa fyrsta MMA bardagann minn var ótrúlega skemmtilegt og gerði mig ennþá áhugasamari um að keppa og reyna fyrir mér í þessu sporti,“ segir Björn um sína fyrstu bardaga.

Björn hefur verið í Taewondo í 26 ár eða nánast frá því byrjað var að kenna íþróttina hér á landi. Hann er þó ekki hættur í Taekwondo og er ennþá að þjálfa og mun líklegast halda áfram að keppa í íþróttinni.

Á Evrópumótinu keppti Björn tvo MMA-bardaga á tveimur dögum en það er eitthvað sem hann er vanur. „Ég hef mikla keppnisreynslu í Taekwondo og Evrópumótið er með svipuðu sniði og Taekwondo mót, þannig að ég er vanur þessu umhverfi. Ég vissi í rauninni ekki hvað ég var að fara út í fyrst en svo var ég voðalega rólegur allan tímann og mjög lítið um stress,“ segir Björn um mótið.

Björn stimplaði sig rækilega inn á mótið með sigri í sínum fyrsta bardaga eftir aðeins 50 sekúndur. Björn nýtti sér spörkin úr Taekwondo og kláraði bardagann með glæsilegum spörkum.

„Ég var auðvitað mjög sáttur með fyrsta bardagann þar sem þetta var fyrsti MMA bardaginn minn og andstæðingurinn var með sirka 15 bardaga á bakinu. Þannig að ég get ekki kvartað!“

Björn náði snemma í bardaganum sparki í magann og féll andstæðingurinn niður fyrir vikið. „Ég var búinn að æfa þetta spark sérstaklega fyrir þetta mót. Sem sagt að pressa og ná honum nálægt búrinu þar sem hann gæti ekki bakkað mikið. Ég veit að bakspörkin mín eru bæði snögg og kröftug og ef ég næ að tímasetja þau rétt þá held ég að það séu fáir sem geta tekið við þeim þótt þeir reyni að verja sig. En ég sá strax á andlitinu á honum þegar hann lá eftir fyrsta sparkið að þetta var búið fyrir hann. Hann bjóst ekki við þessu og hann vildi ekki vera þarna lengur.“

Í öðrum bardaga hans mætti Björn ríkjandi Evrópumeistara, Rostem Akman. Svíinn náði Birni niður og kláraði hann með „rear naked choke“ í 1. lotu en Björn lærði mikið af þeim bardaga.

„Ég hugsaði of mikið um allt sem hann gæti gert í staðinn fyrir að hugsa bara um mig. Fór með aðeins öðruvísi hugarfar og kannski meira stress í þann bardaga þar sem hann var ríkjandi Evrópumeistari. Ég hefði átt að vera aðeins slakari og hugsa meira um að halda fjarlægðinni en ég hleypti honum of nálægt mér of fljótt. Hans leikur snýst einmitt um að ná að setja mikla pressu og að komast inn. Hann er líka góður að pressa mann upp við búrið og ná manni niður.“

Akman fór alla leið á mótinu í ár og er því tvöfaldur Evrópumeistari. Björn er þó sannfærður um að hann geti sigrað hann fái hann annað tækifæri gegn honum. „Ég gerði mitt besta að reyna að verjast en hann er sterkari glímumaður en ég en það er klárlega það sem ég þarf að einbeita mér að verða betri í. Sérstaklega að gera öllum erfitt fyrir að ná mér niður og drilla felluvörn á fullu. Ég held að ef ég fengi nokkra mánuði í viðbót og annan séns á móti honum þá gæti ég unnið hann. Ég allavega lærði mjög mikið á því að fara á móti honum.“

Björn er 38 ára gamall og byrjaði að æfa MMA í janúar. En hvers vegna ákvað hann að taka stökkið yfir í MMA núna?

„Ég hef haft áhuga á MMA lengi og var búinn að gæla lengi við að prófa það en Taekwondo hélt dálítið aftur af mér. En mér finnst mjög margt ábótavant í landsliðsmálum hjá Taekwondo í dag og þá hef ég dálítið misst áhugann og litið meira í átt að MMA. Sé alls ekki eftir því og er mjög spenntur fyrir MMA núna.“

„Ég er með góðan grunn og er mjög fljótur að læra og tileinka mér nýja hluti. Einnig hef ég alltaf líkamlega æft öðruvísi en Taekwondo maður þar sem ég vil vera meira complete og geta einmitt farið út í aðrar íþróttir ef mig myndi langa. Gallinn við Taekwondo fólk er að það er of sport specific og þótt margir séu alveg fáranlega góðir að sparka þá eru þeir ekki nógu líkamlega sterkir til að geta skipt yfir í t.d. MMA. Samt sem áður er maður að sjá fleiri Taekwondo gæja og aðra sem eru góðir að sparka koma yfir í MMA í dag sem er góð þróun og gott fyrir Taekwondo sem íþrótt. Það þarf bara eitt gott spark til að enda bardaga og fólk elskar að sjá góð spörk þannig að það er mjög áhorfendavænt.“

Í janúar heldur Björn til Las Vegas með Taekwondo klúbbnum sínum á US Open. Þar fer Björn bæði sem keppandi og þjálfari en US Open er eitt stærsta opna Taekwondo mót í heiminum. Hann vill þó keppa aftur í MMA sem fyrst.

„Ég vil líka keppa aftur í MMA sem fyrst en þar sem ég er nýkominn heim hef ég ekki haft tækifæri til að tala við þjálfarana mína um næstu verkefni. Ég myndi vilja nota 2017 til að ná eins mörgum amateur bardögum og ég get upp á reynslu og æfingu. Svo hendi ég mér bara beint í pro, ég held ég geti það alveg,“ segir Björn að lokum.

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular