spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaBolamótið: Kynning á fyrstu glímum kvöldsins

Bolamótið: Kynning á fyrstu glímum kvöldsins

Bolamótið verður haldið í fyrsta sinn á laugardaginn. Níu skemmtilegar glímur fara fram en þetta er í fyrsta sinn sem slíkur glímuviðburður fer fram hér á landi.

Aðeins er hægt að sigra glímuna með uppgjafartaki og eru svo kallaðar Eddie Bravo Invitational reglur í gildi. Hér skoðum við keppendurna í fyrstu fjórum gílmum kvöldsins.

Jósep Valur.

Helgi Rafn Guðmundsson (fjólublátt belti) vs. Jósep Valur Guðlaugsson (brúnt belti)

Í fyrstu glímu kvöldsins mætast þeir Helgi Rafn Guðmundsson úr Sleipni og Jósep Valur Guðlaugsson úr Mjölni. Jósep er aldursforseti kvöldsins en hann er fertugur í dag (fimmtudag)! Jósep byrjaði að æfa brasilískt jiu-jitsu árið 2007 og hefur unnið til nokkurra verðlauna á glímumótum hér heima og erlendis. Hann hefur tvívegis orðið Íslandsmeistari, var Evrópumeistari blábeltinga (30-35 ára) og tók silfur á France Open og Thailand Open á sínum tíma. Jósep hefur stundað ýmsar íþróttir og má þar nefna fimleika, kimewaza, fótbolta, aikido, hlaup, lyftingar, aerobic og samkvæmisdansa. Hann er þó ekki í nokkrum vafa um að glíman sé það skemmtilegasta sem hann hefur prófað. Jósep hefur aldrei smakkað áfengi og hjólar hvert sem hann fer.

Áhugaverð staðreynd: Jósep var Íslandsmeistari í vaxtarrækt í -70 kg flokki árið 1998!

Helgi Rafn.

Helgi hefur æft brasilískt jiu-jitsu frá árinu 2007 en æfði þá hjá Fjölnir Fight Club hjá Haraldi Óla Ólafssyni. Helgi hefur einu sinni unnið sinn flokk á Grettismótinu og sömuleiðis unnið sinn flokk einu sinni á Mjölnir Open. Þá hefur hann margoft verið á palli á Íslandsmeistaramótinu og fyrrnefndum mótum. Helgi er einn reyndasti taekwondo maður þjóðarinnar og er hann margfaldur Íslandsmeistari í greininni. Þá hefur hann einnig keppt í júdó, boxi og fótbolta!

Þeir Jósep og Helgi hafa tvívegis mæst á keppnum hér á landi. Fyrst sigraði Jósep fyrir tæpum áratug síðan en í seinni glímunni sigraði Helgi með uppgjafartaki á lokasekúndum úrslitaglímu þeirra á Grettismóinu.

Lilja að glíma.

Lilja Rós Guðjónsdóttir (blátt belti) vs. Margrét Ýr Sigurjónsdóttir (blátt belti)

Fyrsta kvennaglíma kvöldsins er á milli tveggja Mjölniskvenna. Lilja Rós Guðjónsdóttir er 23 ára Vesturbæringur sem hefur æft brasilískt jiu-jitsu frá 2016. Lilja fékk gull á Hvítur á leik í fyrra og brons bæði í sínum flokki og opnum flokki á Íslandsmeistaramótinu í fyrra. Áður hafði Lilja æft fótbolta.

Áhugaverð staðreynd: Lilja keppti í línudansi 12 ára gömul fyrir framan fulla Laugardalshöll og tók að sjálfsögðu gullið.

Margrét fyrir miðju.

Hin tvítuga Margrét Ýr Sigurjónsdóttir kemur úr Garðabæ og byrjaði að æfa brasilískt jiu-jitsu í apríl 2016. Margrét keppti á sínu fyrsta glímumóti síðasta sumar en þá lenti hún í 3. sæti í sínum flokki á Hvítur á leik. Þá var hún Íslandsmeistari hvítbeltinga í fyrra en Margrét fékk svo bláa beltið í desember. Margrét keppti í fimleikum með Stjörnunni og var Íslandsmeistari, deildarmeistari og bikarmeistari í hópfimleikum með liðinu sem unglingur. Þá var hún valin efnilegasta fimleikakona Garðabæjar árið 2008.

Áhugaverð staðreynd: Margrét var í kayak klúbb þegar hún var í grunnskóla.

Þær Lilja og Margrét mættust í opna flokkinum á Íslandsmeistaramótinu í fyrra þar sem Lilja sigraði á stigum.

Kristján Helgi Hafliðason (fjólublátt belti) vs. Sigurpáll Albertsson (fjólublátt belti)

Kristján Helgi Hafliðason er 20 ára glímumaður úr Mjölni. Kristján byrjaði í unglingatímum í Mjölni árið 2011, þá nýorðinn 14 ára. 16 ára gamall hóf hann að mæta í fullorðinstíma í BJJ og má því segja að Kristján hafi hálfpartinn alist upp á glímudýnunum. Kristján á þrjá Íslandsmeistaratitla að baki sem unglingur og þá hefur hann tvívegis orðið Íslandsmeistari fullorðinna. Honum hefur líka gengið vel á mótum erlendis en í janúar komst hann í 8-manna úrslit í sínum flokki á Evrópumeistaramótinu.

Áhugaverð staðreynd: Kristján lærði að leysa Rubix kubb þegar hann var 10 ára gamall og er fáranlega góður að kasta spilum í ávexti.

Mynd: Casa Kickapoo.

Sigurpáll Albertsson er 25 ára Grindvíkingur sem æfir hjá VBC. Sigurpáll hefur æft brasilískt jiu-jitsu í þrjú ár en þar áður hafði hann verið í júdó frá 15 ára aldri. Sigurpáll hefur aðeins keppt á tveimur mótum í jiu-jitsu og náði hann sínum besta árangri þegar hann náði bronsinu í sínum flokki á Íslandsmeistaramótinu í fyrra. Hann er þó með mikla reynslu úr júdó og keppti margoft sem unglingur, bæði hér heima og erlendis. Í júdóinu tókst honum að verða tvöfaldur Íslandsmeistari en gólfglíman var alltaf hans sterkasta hlið.

Áhugaverð staðreynd: Margir segja að Sigurpáll sé með mýkstu hendurnar sem fyrir finnast meðal bardagamanna. Hér eftir verður hann þekktur sem Sigurpáll ‘Soft hands’ Albertsson.

Þeir Kristján og Sigurpáll mættust í undanúrslitum í -88 kg flokki á síðasta Íslandsmeistaramóti í æsispennandi glímu. Sigurpáll var yfir á stigum þegar Kristján náði glæsilegu uppgjafartaki.

Dóra og Inga er þær mættust á Grettismótinu 2013. Mynd: Jón Viðar Arnþórsson.

Inga Birna Ársælsdóttir (fjólublátt belt) vs. Dóra Haraldsdóttir (fjólublátt belti)

Inga Birna Ársælsdóttir er 25 ára glímukona frá Álftanesi. Inga tók sitt fyrsta grunnnámskeið í brasilísku jiu-jitsu í Mjölni árið 2011 en byrjaði ekki að æfa almennilega fyrr en 2012. Inga varð Íslandsmeistari 2014 og hefur einnig tekið sinn flokk á Grettismótinu hér heima. Erlendis hefur hún náð góðum árangri og má þar helst nefna sigur í sínum flokki á Copenhagen Open 2014, 3. sæti í sínum flokki og opnum flokki á Nordic Open og silfur á Naga í París í fyrra.

Áhugaverð staðreynd: Inga Birna var á fullu í hestamennsku frá 7 ára til 16 ára aldurs. Hún hefur lokið knaparéttindum en sumarið 2016 bjó hún í hjólhýsi í Danmörku þar sem hún lærði að temja hesta. Þá var hún einnig í einsöngsnami í níu ár en sagði skilið við það 16 ára gömul.

Dóra Haraldsdóttir er þrítug og hefur æft brasilískt jiu-jitsu í rúm fimm ár. Dóra tók gullið á Grettismótinu 2013 en hefur einnig nælt sér í einhver silfur og brons á mótum hér heima. Dóra tók brons í opnum flokki á Swedish Open 2014 og lauk nýlega brimbrettanámskeiði í karabíska hafinu þar sem hún hafnaði í 2. sæti í nýliðakeppni.

Áhugaverð staðreynd: Dóra er með mikið keppnisskap þegar kemur að búningum en það hefur minnkað eftir að vinkonur hennar hrekktu hana og plötuðu hana til að mæta sem Goth Mansonisti í prinsessu þemapartý.

Þær Inga og Dóra hafa mæst nokkrum sinnum áður og unnið eitthvað til skiptis en nú síðast mættust þær á Grettismótinu 2017 þar sem Inga sigraði.

Bolamótið fer fram á laugardaginn en uppselt er á mótið.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular