Fjórir Íslendingar áttu að keppa á North Atlantic Fight Night nú á laugardaginn. Nú hefur einn andstæðingur dottið út en allir andstæðingar strákanna hafa breyst.
Upphaflega áttu Mjölnismennirnir Björn Þorleifur Þorleifsson, Bjartur Guðlaugsson, Björn Lúkas Haraldsson og Þorgrímur Þórarinsson allir að berjast í Færeyjum. Því miður hefur andstæðingur Björns Þorleifs (1-1) dregið sig úr bardaganum með skömmum fyrirvara. Ekki tókst að fá annan andstæðing fyrir Björn Þorleif og fær hann því ekki bardaga á laugardaginn.
Nokkur ruglingur hefur verið á öðrum andstæðingum strákanna. Upphaflegi andstæðingur Björns Lúkasar (0-0) datt út og fékk Björn þrjá andstæðinga sem einnig duttu út áður en hann fékk andstæðing að nafni Zabi Saeed (2-2). Sá berst vanalega í léttvigt en var tilbúinn að berjast í veltivigt gegn óreyndari andstæðingi.
Bjartur Guðlaugsson (1-2) fékk þær slæmu fréttir á þriðjudaginn að andstæðingur hans væri dottinn út. Lítil von var um að finna nýjan andstæðing en það tókst á endanum og mætir hann Dananum Mikkel Thomsen (3-3) en bardaginn fer fram í fjaðurvigt.
Þorgrímur Þórarinsson (0-0) fékk einnig nýjan andstæðing en sem betur fer var ágætis fyrirvari á því. Þorgrímur mætir Ola Jacobsson (2-2) í veltivigt og bendir nú allt til þess að þrír Íslendingar berjist í Færeyjum á laugardaginn.