Þær óvæntu fréttir voru að berast að Chris Weidman hafi brotið á sér höndina og geti því ekki varið titilinn sinn gegn Vitor Belfort. Bardaginn átti að fara fram þann 6. desember á UFC 181 en titilbardagi Johny Hendricks og Robbie Lawler kemur í staðinn.
Dana White staðfesti fyrir stuttu að Weidman hafi brotið á sér höndina. Bardagi Weidman og Belfort verður því færður til febrúar 2015. UFC 181 verður þó ekki án titilbardaga þar sem Johny Hendricks og Robbie Lawler munu mætast í titilbardaga í veltivigtinni. Þeir mættust einmitt í mars á þessu ári þar sem Hendricks sigraði í einum besta titilbardaga UFC. Hendricks hefur verið að jafna sig eftir rifinn tvíhöfða og var haft eftir umboðsmanni hans að hann væri í um 85% standi núna og var búist við að hann myndi snúa aftur í febrúar. Þau plön eru nú fokin út í veður og vind og þarf Hendricks að vera tilbúinn gegn öflugum Lawler þann 6. desember.
Enn einu sinni er UFC meistari að meiðast en sem betur fer ætti Weidman að vera tilbúinn í bardaga í febrúar. Bardaginn í desember verður jafnframt fyrsta titilvörn Hendricks en hann hefur verið frá vegna meiðsla. Þetta er í annað sinn sem fresta þarf titilbardaga Weidman en Weidman átti að mæta Lyoto Machida í maí í fyrra en var frestað til júlí vegna meiðsla Weidman.