Sunday, September 8, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentConor McGregor og Dustin Poirier að skipuleggja góðgerðarbardaga á Írlandi?

Conor McGregor og Dustin Poirier að skipuleggja góðgerðarbardaga á Írlandi?

Undanfarna daga hafa Conor Mcgregor og Dana White verið að deila sín á milli opinberlega. Conor vill fá bardaga og setur nú stefnuna á góðgerðarbardaga við Dustin Poirier.

Þrætuepli þeirra Conor og Dana White er að Conor er ósáttur með að UFC sé ekki að bjóða honum neina bardaga af viðunandi tagi. Dana þvertekur fyrir það og segist hafa boðið Conor bardaga en þeim hafi öllum verið hafnað, aukinheldur bendir Dana White á þá staðreynd að Conor sé hættur.

Conor hefur núna tekið málin í sínar hendur og er farinn að bóka sér bardaga að sínu eigin frumkvæði. Þetta byrjaði allt saman á því að Conor birti færslu á Twittersíðu sinni sem beint var að kollega hans í léttvigtinni Dustin Porier. Í færslunni stingur Conor upp á að þeir mæti hvor öðrum í góðgerðabardaga á Írlandi og tók Conor það skýrt fram að UFC hafi enga viðkomu að bardaganum.

Conor sér fyrir sér að bardaginn fari fram þann 12. desember í Point Depot höllinni í Dublin og verður þetta svokallaður sýningarbardagi í opnum þyngdarflokki með engri vigtun en þó verður farið eftir alþjóðlegum MMA-reglum. Bardaginn á að vera sýndur í sjónvarpi eða í gegnum áskriftarþjónustu og mun allur ágóðinn renna til góðgerðamála að þeirra vali en að auki mun Conor láta 500.000 bandaríkjadali renna úr eigin vasa til The Good Fight Foundation, góðgerðasamtök Dustin Poirier og konu hans. Conor bauðst svo að lokum til þess að fljúga Dustin og fjölskyldu hans til Írlands í bardagann.

Þegar kapparnir mættust fyrst var það í fjaðurvigtinni þar sem Conor gekk frá Dustin með tæknilegu rothöggi í fyrstu lotu. Það var einmitt á þeim tíma þegar Conor var á ljóshraða upp metorðastiga UFC og MMA-senunnar.

Síðan þá hefur Poirier margsinnis opinberað áhuga sinn á að mæta Conor aftur í búrinu og eftir þetta boð frá Conor var Poirier ekki lengi að lýsa því yfir að hann sé klár í slaginn.

Dustin Poirier og konan hans Joile hafa undanfarin ár látið gott af sér leiða í gegnum góðgerðasamtökin The Good Fight Foundation sem hafa meðal annars byggt vatnsbrunna í Úganda og útvegað sjúkrahúsum í Bandaríkjunum bílstóla svo mæður geti komið nýfæddum börnum sínum heim með öruggum hætti.

Conor McGregor hefur greinilega fylgst vel með þessum góðverkum Poirier og svo virðist sem að þeir félagarnir ætli að gera sitt besta til að láta verða af þessum sýningabardaga í desember. Conor svaraði Twitter-færslu Dustin á þá leið að nú ættu þeir að taka samningsviðræður af samfélagsmiðlum og ræða málin sín á milli í einrúmi. Mikil virðing ríkir á milli beggja aðila ef marka má samskipti þeirra á Twitter.

Það er bersýnilegt að báðir aðilar eru mjög spenntir fyrir þessu verkefni en enn er fíll í herberginu sem erfitt verður að hunsa ef þessi bardagi á að verða að veruleika. Báðir aðilar eru samningsbundnir UFC sem hindrar að þeir berjist annars staðar nema með leyfi frá UFC. Til eru dæmi þess að bardagakappar samningsbundnir UFC hafa fengið að taka þátt í glímu- og jiu jitsumótum en erfitt er að meta hvort UFC komi til með að leggja blessun sína yfir það að tvær stórar stjörnur fái að mætast í MMA bardaga utan UFC.  

spot_img
spot_img
Sjonni
Sjonnihttps://www.mmafrettir.is
-Bardagaáhugamaður -Fjólublátt belti í BJJ -Stjórnamaður í Mjölni -Tölvunarfræðingur
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -spot_img

Most Popular