spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentConor McGregor: Sé enga áskorun í fjaðurvigtinni lengur

Conor McGregor: Sé enga áskorun í fjaðurvigtinni lengur

conor mcgregor jose aldo
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Conor McGregor segist hafa gert mörg mistök fyrir bardaga sinn gegn Nate Diaz. Þetta segir hann í nýlegu viðtali við ESPN en McGregor segist einnig hafa lítinn áhuga á fjaðurvigtarbeltinu.

Conor McGregor vill ólmur mæta Nate Diaz aftur en Diaz sigraði Conor McGregor með hengingu í 2. lotu á UFC 196 í mars. UFC hefur reynt að setja bardagann aftur saman án árangurs. UFC náði ekki samkomulagi við Nate Diaz á nýlegum fundi en Nate Diaz er sagður vilja fá betur borgað. Ekki er vitað hver staðan á endurati þeirra er en fari bardaginn fram mun hann fara fram á UFC 202 í ágúst.

Conor McGregor vill að bardaginn fari fram í 170 pundum (77 kg) rétt eins og fyrri bardaginn. McGregor er 145 punda (66 kg) meistarinn og Diaz hefur lengi barist í 155 punda (70 kg) léttvigtinni. Því er skrítið að McGregor vilji að bardaginn fari fram í 170 pundunum. „Hvers konar bardagamaður væri ég ef ég myndi segja ‘hey, mér mistókst í 170 pundum, leyf mér að prófa í 155’. Ég mun gera mínar breytingar. Síðast borðaði ég mig upp í þyngd en það ætla ég ekki að gera núna,“ segir McGregor.

„Fyrstu átta mínútur bardagans voru auðveldar. Ég sló hausinn nánast af honum. Þegar þolið kláraðist var þetta búið. Ég drukknaði. Hann hitti einu góðu höggi sem vankaði mig og hleypti honum aftur í bardagann. Hann var nánast búinn. Eitt eða tvö högg hefðu klárað bardagann.“

Conor McGregor þurfti ekki að skera mikið niður fyrir bardagann líkt og þegar hann berst í fjaðurvigtinni. Æfingarnar voru því öðruvísi en vanalega og segist McGregor hafa gert mörg mistök þar. „Að sveifla mér í fimleikahringjum vikuna fyrir bardagann var ekki það besta sem ég gat gert. Vanalega geri ég bara bardagatengdar æfingar [vikuna fyrir bardagann] en í þetta sinn fannst mér ég vera frjáls þar sem ég þurfti ekki að skera niður. Ég hafði mjög mikla orku. Ég var að gera mikið af skoppandi fótavinnuæfingum og var tábergið mitt skaðbrunnið. Þegar ég lít til baka sé ég að þetta var fáranlegt. Ég veit ekki hvað ég var að hugsa.“

Síðan hann tapaði fyrir Diaz hefur McGregor fengið til sín sérfræðinga til að fylgjast með þolinu sínu. Hann starfar nú með næringafræðingnum Greg Lockhart allt árið og fylgist gríðarlega vel með mataræðinu sínu.

Margir bardagaáhugamenn vilja sjá McGregor verja fjaðurvigtarbeltið sitt í stað þess að mæta Diaz. Þeir Frankie Edgar og Jose Aldo munu berjast um bráðabirgðarbeltið á UFC 200. McGregor segir að það hafi verið sín hugmynd að láta Aldo og Edgar berjast um bráðabirgðartitil. „Ég vildi fá mína hefnd í 170 pundunum og þeir eru grenjandi og kvartandi yfir 145 punda beltinu sem ég var að vinna fyrir þremur mánuðum síðan. Þessi flokkur var steindauður. Jose fór niður á 13 sekúndum. Ég ferðaðist um heiminn með manninum, kom honum loksins í búrið og hann entist aðeins í 13 sekúndur.“

„Ég sé enga áskorun þar lengur. Ég vil sjá þá berjast með titil í húfi. Þá mun ég sjá mann með mitt belti og það mun vekja hjá mér áhuga. Þá mun mig langa í þetta belti.“

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular