spot_img
Thursday, December 19, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentDagskrá UFC í upphafi árs

Dagskrá UFC í upphafi árs

UFC vinnur nú hörðum höndum af því að setja upp viðburðadagatal sitt þessa fyrstu mánuði ársins. Þrír titilbardagar eru nú staðfestir á fyrstu 11 bardagakvöld ársins.

UFC þurfti auðvitað að gera hlé á dagskrá sinni í mars og apríl í fyrra vegna kórónuveirunnar en setti síðan allt á fullt. UFC var með bardagakvöld hverja einustu helgi frá 12. júlí til 19. desember en vélin hefur síðan þá tekið smá frí.

Fyrsta bardagakvöld ársins verður þann 16. janúar en þrjú bardagakvöld verða á dagskrá hjá UFC á einni viku. Eftir það tekur við smá hlé en frá 6. febrúar og til 27. mars verða bardagkvöld allar helgar.

16. janúar – UFC Fight Night: Holloway vs. Kattar
20. janúar – UFC Fight Night: Chiesa vs. Magny
23. janúar – UFC 257
6. febrúar – UFC Fight Night: Overeem vs. Volkov
13. febrúar – UFC 258
20. febrúar – UFC Fight Night: Blaydes vs. Lewis
27. febrúar – UFC Fight Night: Reyes vs. Prochazka
6. mars – UFC 259
13. mars – UFC Fight Night: ?
20. mars – UFC Fight Night: Brunson vs. Holland
27. mars – UFC Fight Night: ?

Stærsti bardaginn sem er bókaður núna er bardagi Conor McGregor og Dustin Poirier þann 23. janúar á UFC 257. Óvíst er hvort þetta verði titilbardagi en UFC gæti tekið upp á því að gera þetta að titilbardaga þar sem Khabib Nurmagomedov er hættur.

Á UFC 258 þann 13. febrúar hefur UFC staðfest titilbardaga Kamaru Usman og Gilbert Burns. Á UFC 259 verða síðan tveir titilbardagar; annars vegar Israel Adesanya gegn Jan Blachowicz í léttþungavigt og hins vegar Amanda Nunes gegn Megan Anderson í fjaðurvigt kvenna.

Þegar þetta er skrifað eru ekki staðfestir titilbardagar í nokkrum flokkum UFC.

Þungavigt: Stipe Miocic mun væntanlega mæta Francis Ngannou næst. Talað var um þann bardaga í mars en eitthvað er að tefja fyrir þar sem sá bardagi hefur ekki verið staðfestur. Vonandi snýr Miocic aftur í búrið á fyrstu fimm mánuðum ársins.

Fjaðurvigt: Alexander Volkanovski er klár í næstu titilvörn. Það gæti gerst á UFC 258 í febrúar eða UFC 259 í mars. Síðarnefnda bardagakvöldið er líklegra þar sem Volkanovski gæti barist ásamt liðsfélaga sínum Israel Adesanya. Næsta titilvörn Volkanovski verður líklegast gegn Brian Ortega.

Bantamvigt: Petr Yan átti að mæta Aljamain Sterling í desember en vegna vandræða með vegabréfsáritun hans var bardaganum frestað. UFC hefur ekki tilkynnt nýja dagsetningu en bardaginn gæti endað á UFC 258 í febrúar. Yan birti neðangreint tíst á dögunum sem bendir til að vandræðin með vegabréfsáritunina séu úr sögunni.

Fluguvigt: Bardagamaður ársins 2020, Deiveson Figueiredo, á skilið smá frí eftir annasamt ár. Hann mætir Brandon Moreno aftur og gæti sá bardagi farið fram í apríl eða maí. Þá ættu báðir að vera nokkuð ferskir eftir stríðið sem þeir áttu í desember.

Fluguvigt kvenna: Valentina Shevchenko er án bardaga en talið er að Jessica Andrade verði hennar næsti andstæðingur. Eftir því sem best er vitað er Valentina heilsuhraust og spurning hvort hún endi á bardagakvöldi á fyrstu mánuðum ársins.

Beltið í millivigt verður síðan væntanlega á hillunni á meðan Adesanya skorar á Blachowicz í léttþungavigt og Nunes rígheldur í hitt beltið sitt. Aðrir flokkar hafa bókaða titilbardaga en það er ljóst að fyrstu mánuðir ársins hjá UFC gætu orðið nokkuð spennandi.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular