Daniel Cormier mætir Jon Jones á UFC 197 þann 23. apríl. Í viðtali við Bloody Elbow talar Cormier um komandi bardaga gegn Jones, mistökin í síðasta bardaga og æfingar með þungavigtarmeistara Glory, Rico Verhoeven.
Daniel Cormier er léttþungavigtarmeistari UFC og mun mæta Jon Jones um beltið í apríl. Jones var auðvitað meistarinn áður en hann var sviptur titlinum í maí í fyrra. Kapparnir mættust fyrst í janúar 2015 þar sem Jones fór með sigur af hólmi eftir dómaraákvörðun.
Rico Verhoeven æfir við og við hjá American Kickboxing Academy, AKA, þar sem Daniel Cormier æfir. Verhoeven er frábær sparkboxari og þungavigtarmeistarinn í Glory sem er stærsta sparkbox keppnin í dag.
Verhoeven er 26 ára gamall og búinn með 58 bardaga í sparkboxi en hefur verið að horfa til MMA. Verhoeven sigraði sinn fyrsta og eina MMA bardaga í fyrra og æfir reglulega með AKA. Hann er eflaust frábær æfingarfélagi fyrir Cormier enda er Verhoeven 196 cm á hæð og með langan faðm.