Friday, April 19, 2024
HomeErlentDarren Till: Ég hata að skera niður

Darren Till: Ég hata að skera niður

Darren Till spjallaði við fjölmiðla í dag um komandi titilbardaga gegn Tyron Woodley. Till er orðinn þreyttur á sífelldum spurningum um þyngdina sína og niðurskurðinn.

Darren Till var með opna æfingu í æfingaaðstöðu UFC í Las Vegas í dag. Till er afar stór í veltivigtinni en hann hefur tvisvar ekki náð vigt í UFC. Í maí 2017 var hann 176 pund fyrir bardaga sinn gegn Jessin Ayari og var svo 174 pund fyrir bardagann gegn Stephen Thompson í maí. Till þarf að vera akkúrat 170 pund eða undir þegar hann stígur á vigtina fyrir titilbardaga sinn gegn Tyron Woodley á UFC 228.

Darren Till var með opna æfingu í Las Vegas í dag. Till neitaði að gefa upp hversu þungur hann er en lofaði því að hann myndi ná vigt í þetta sinn. Till er einnig orðinn þreyttur á sífelldum spurningum um þyngd sína.

„Þetta er ömurlegt. Alveg ömurlegt. Ég hata að skera niður, ég hata að létta mig, ég hata að hugsa um mataræðið. Ég mun ná vigt og ég get ekki beðið eftir að segja öllum að fara í rassgat þegar ég stíg á vigtina. Akkúrat núna langar mig ekki að æfa meira, mig langar ekki að borða hollt lengur. Ég vildi óska þess að ég væri með hamborgara fyrir framan mig núna en þetta eru allt fórnir sem ég þarf að færa og ég gerði mistök síðast,“ sagði Till í dag.

Bardaginn fer fram þann 8. september og er Till orðinn þreyttur á biðinni eftir bardaganum.

„Æfingabúðirnar hafa verið stuttar en erfiðar. Ég verð því í slæmu skapi næstu daga. Ef ég væri heima hjá mér myndi ég gera það sem þarf að gera og láta mig svo hverfa þar til um kvöldið. Hérna finnst mér eins og það séu myndavélar alls staðar. Ef einhver kæmi með McDonalds til mín núna myndi ég hressast við, en svona er þetta.“

„Ég er þreyttur. Ég vil fá að berjast núna. Ég er búinn með alla erfiðisvinnuna. Ég er tilbúinn fyrir fimm lotur, ég er tilbúinn í eina lotu. Ég er í góðu formi. Ég hef lagt mikið á mig á æfingum, í mataræðið, svo ég verði besta útgáfan af sjálfum mér.“

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular