Demian Maia mætir Gunnari Nelson á laugardaginn á UFC 194. Maia telur að bardaginn verði erfiður fari hann í jörðina.
Báðir eru þeir frábærir glímumenn en aðspurður um hvort Gunnar sé á sama getustigi og hann í glímunni sagði Maia svo ekki vera.
„Í pjúra glímu nei. En í MMA glímu, hver veit? Það er öðruvísi jiu-jitsu, þú aðlagar þig að MMA. Ég hef séð bardagana hans og hann er mjög góður í gólfinu. Ég veit að ef bardaginn fer í gólfið verður þetta erfiður bardagi,“ sagði Maia.
„Allir hafa sína veikleika og styrkleika. Ég gerði heimavinnuna mína með liðinu mínu og nú þarf ég bara að nýta mér mistökin hans.“
Gunnar hefur sagt í viðtölum að hann vilji glíma við Maia. „Hann sagðist vilja glíma við mig. En ég veit ekki, margir hafa sagt það áður en aldrei glímt við mig. Hann virðist hafa trú á sér en við skulum sjá til á laugardaginn.“
Maia vildi ekki gefa upp nákvæma spá sína fyrir bardagann og gat ekki sagt hvernig hann myndi vinna. „Ég þarf fyrst að vinna, skiptir ekki máli hvernig.“
Viðtalið í heild sinni má sjá hér að neðan.