Demian Maia mætir Gunnari Nelson á UFC 194 í desember. Maia var staddur í Stokkhólmi á dögunum og ræddi við vini okkar á MMA Viking.
UFC 194 fer fram þann 12. desember og verður eitt stærsta bardagakvöld ársins. Maia og Gunnar voru nálægt því að mætast á bardagakvöldinu í Dublin í október en Maia var með sýkingu og gat ekki barist svo snemma. Hann vildi leyfa líkamanum að jafna sig eftir sýkinguna og vildi ekki flýta sér um of.
Sjá einnig: Friðsæli stríðsmaðurinn Demian Maia
Þeir Carlos Condit og Robbie Lawler áttu upphaflega að mætast á UFC 193 í nóvember en þegar Lawler meiddist óskaði Maia eftir bardaga gegn Condit. „Við báðum um Carlos Condit þegar Lawler meiddist eða [Tarec] Saffiedine, en þeir (UFC) stungu upp á Gunnari sem er frábær bardagamaður. Þeir óskuðu eftir að ég myndi mæta honum og munum við mætast þann 12. desember og berjast frábæran bardaga,“ sagði Maia við MMA Viking.
Aðspurður hvernig Maia sjái bardagann fyrir sér standandi sagðist hann ekki vera viss. „Ég hreinlega veit það ekki. Hann er með öðruvísi stíl, svona karate stíl. Ég held samt að hann vilji glíma við mig. Við sjáum til hvort við munum glíma í bardaganum.“
„Ég vonast til að klára bardagann en hann er harður og veit hvernig á að glíma og hefur æft glímuna lengi. Það er erfitt að segja hvort ég nái að klára bardagann eða ekki,“ sagði Maia að lokum.
Viðtalið í heild sinni má sjá hér að neðan.