Diego Björn Valencia barðist á ICE FC 15 bardagakvöldinu í Danmörku í gær. Diego tapaði eftir klofna dómaraákvörðun gegn heimamanninum.
Mjölnismaðurinn Diego mætti Dananum Mikkel Kasper en sá er svart belti í júdó og var heimsmeistari áhugamanna árið 2014. Þetta var annar atvinnubardagi beggja og reyndist bardaginn vera hörku viðureign.
Diego byrjaði bardagann ágætlega og átti nokkur góð spörk í Kasper í 1. lotu. Daninn náði þó tveimur fellum án þess að gera mikinn skaða.
2. lota var afar skemmtileg en Diego smellti nokkrum þungum spörkum í Danann. Kasper átti góða syrpu þar sem hann náði að lenda að því er virtist góðum höggum og fellu. Diego stóð strax aftur upp en Kasper náði annarri fellu og hélt sér ofan á um tíma. Diego náði að snúa stöðunni við þar sem hann náði tveimur til þremur góðum olnbogum.
Í 3. lotu náði Kasper fellu snemma í lotunni og náði að halda sér ofan á lengi. Diego hótaði með „armbar“ en náði ekki að klára. Diego tókst að standa upp og sótti Kasper strax í júdó kast en Diego tókst að enda ofan á. Diego náði nokkrum fínum höggum á Kasper og kláraði lotuna ofan á í „guardinu“ hans.
Eftir þrjár harðar lotur sigraði Mikkel Kasper eftir klofna dómaraákvörðun. Tveir dómarar dæmdu Kasper sigur í bardaganum en þess má geta að einn dómaranna gaf Diego sigur í öllum lotunum. Þetta var hörku bardagi og mjög jafn og hefði sigurinn getað dottið báðu megin. Flottur bardagi hjá Diego þrátt fyrir tapið.
Bardagann má sjá hér að neðan í ekkert sérstökum gæðum en betra myndband af bardaganum á víst að koma bráðlega.
Auðvitað er maður ekki hlutlaus þegar vinir manns eiga í hlut en ég reyni samt alltaf eins og ég get að horfa bara á bardagann eins og hann er. Mín skoðun á þessum bardaga er að hann hafi augljóslega verið afar jafn og kannski nokkuð erfitt að dæma hann. Einn dómari dæmdi Diego sigur í öllum lotum en hinir tveir dæmdu tvær lotur til Danans og eina til Diego. Og stundum hefur einfaldlega minnihlutinn rétt fyrir sér. Þessi bardagi er að mínu mati gott dæmi um það hvernig sumir dómarar skora takedown sem engu skila alltof hátt. John Kavanagh hefur oft nefnt þetta. Já, andstæðingur Diego var með góð takedown en þetta er ekki judomót. Diego sneri þessu sér í vil og endaði t.d. 2. og 3. lotu ofaná. Þá fannst mér Diego vera mun meira aggressive og stýra bardaganum (octagon control) mun meira en Daninn. Fyrir mér vann Diego þennan bardaga og hefði átt að fá sigur hjá dómurunum og sorglegt að bara einn af þremur sá þetta svona. En svona getur þetta farið og dómaraúrskurður er alltaf happdrætti, sérstaklega svona jafnbardagi eins og klofin dómaraákvörðun sýnir.