Dominick Cruz var mjög ósáttur með störf dómarans í bardaga sínum í gær. Cruz taldi að dómarinn hefði stöðvað bardagann of snemma.
Dominick Cruz tapaði fyrir Henry Cejudo í nótt eftir tæknilegt rothögg þegar tvær sekúndur voru eftir af 2. lotu. Cejudo hitti með hné í höfuð Cruz sem féll niður og fylgdi Cejudo því eftir með höggum í gólfinu. Cruz fékk 11 högg í sig án þess að verja þau en var að koma sér aftur á fætur þegar dómarinn steig inn og stöðvaði bardagann.
Cruz mótmælti ákvörðun Keith Peterson strax og var mjög ósáttur.
„Ég er ósáttur þar sem ég bað dómarann sérstaklega að gefa mér tíma þar til ég væri rotaður. Ég var að standa upp. Ef ég hefði verið liggjandi á gólfinu skil ég þetta. En ég er að reyna að komast upp. Ég var meðvitaður um hvað væri í gangi. Það voru högg að lenda en það er hluti af bardaganum en ef ég er að reyna að standa upp er ég í bardaganum. Ef ég hefði legið þarna og haldið áfram að éta högg hefði ég skilið þetta. En vel gert hjá Henry, ég hef engar afsakanir. Ég hefði ekki átt að éta þetta hné og það kom mér í þessa stöðu,“ sagði Cruz eftir bardagann.
Cruz sagði ennfremur að áfengislykt hefði verið af dómaranum.
„Þetta var stoppað of snemma, 100%. Ég vildi að það væri hægt að gera dómara ábyrga gjörða sinna. Þessi gaur [dómarinn Keith Peterson] lyktaði af áfengi og sígarettum, hver veit hvað hann var að gera. Ég vildi að þeir væru teknir í lyfjapróf. Ég veit að Herb Dean er góður dómari, hann er einn af þeim bestu. Um leið og ég sá dómarann [Keith Peterson] velti ég því fyrir mér hvort það væri hægt að fá nýjan,“ sagði Cruz eftir bardagann.
Cruz er harður á því að hann hafi enn verið inn í bardaganum og á leiðinni upp þegar dómarinn steig inn. Cruz veit þó að hann ber mesta ábyrgð á tapinu þar sem Cejudo hitti með hnénu og kennir engum öðrum en sjálfum sér um tapið.