Donald Cerrone sigraði Myles Jury á UFC 182 um nýliðna helgi. Cerrone vildi fá að keppa eins fljótt og mögulegt er og hann hefur nú fengið ósk sína uppfylllta því hann mun stíga inn fyrir Eddie Alvarez og mæta Benson Henderson þann 18. janúar.
Eddie Alvarez þurfti að draga sig úr bardaga sínum gegn Benson Henderson á UFC Fight Night 59 vegna meiðsla. Cerrone mun því berjast með aðeins tveggja vikna millibili en þetta verður 6. bardagi Cerrone á innan við 365 dögum.
Cerrone var mjög vonsvikinn með frammistöðu mótherja síns, Myles Jury, á laugardaginn en Cerrone hafði mikla yfirburði í bardaganum. Hann talaði um að hafa ekki fengið að gefa áhorfendum þann bardaga sem þau áttu skilið að sjá og var alveg brjálaður yfir að hafa heyrt fólk baula á þá. Hér sést hann taka út pirring sinn á Jury í lok bardaga þeirra.
Ef Cerrone tekst að sigra Henderson myndi hann vera á sjö bardaga sigurgöngu og væri því erfitt að neita honum um titilbardaga gegn þeim sem fer með sigur af hólmi í viðureign Anthony Pettis og Rafael Dos Anjos.
Bardagakvöldið fer fram í Boston og er bardagi Conor McGregor og Dennis Siver aðalbardagi kvöldsins. Bardagakvöldið fer fram sunnudaginn 18. janúar og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.