Í kvöld fer fram eitt besta bardagakvöld UFC á þessu ári. UFC 178 er hlaðið stjörnum á borð við Conor McGregor, Donald Cerrone og Demetrious Johnson. Eitt nafn hefur þó gleymst í umræðunni en það er nafn fyrrum bantamvigtarmeistarans Dominick Cruz.
Cruz mun takast á við Takeya Mizugaki sem hefur verið brennandi heitur upp á síðkastið og er ósigraður í seinustu fimm bardögum. Þegar Cruz stígur inn í búrið hafa liðið næstum þrjú ár síðan hann keppti seinast í MMA. Hann hefur þurft að takast á við hin ótrúlegustu meiðsli bæði á hnjám og í nára. Cruz er þó ósigraður í seinustu tíu bardögum og hans eina tap kom gegn Urijah Faber árið 2007. Í júlí 2011 tókust þeir aftur á og þar sigraði Cruz örugglega.
Það er til mikils að vinna fyrir bæði Mizugaki og Cruz. Með sigri gæti Mizugaki komið sér í stöðu til þess að keppa um titilinn. Cruz er fyrrverandi meistari og áður en hann meiddist töldu margir að hann væri einn af þeim bestu pund fyrir pund. Fyrr á þessu ári þurfti Cruz að láta beltið af hendi vegna meiðslanna svo til þess að styrkja stöðu sína sem einn besti bardagamaðurinn í sínum þyngdarflokk verður hann að sigra í kvöld.
Cruz sigraði seinast Demetrious Johnson þegar flugumeistarinn var enn í bantamvigt. Hann hefur einnig sigrað Urijah Faber, Joseph Benavidez, Ian McCall og fleiri. Seinasti sigur Mizugaki kom gegn Fransisco Rivera eftir dómaraúrskurð. Bardaginn er síðasti upphitunarbardagi (e. prelims) kvöldsins og ætti því að hefjast um kl 1:30 í nótt.