spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaFöstudagstopplistinn: Fimm áhugaverðustu nýliðarnir úr Strikeforce

Föstudagstopplistinn: Fimm áhugaverðustu nýliðarnir úr Strikeforce

Strikeforce bardagakeðjan var lögð niður í janúar á þessu ári og bestu bardagamennirnir þar fengu samning við UFC. Nú er árið senn á enda og komin smá reynsla á hetjurnar úr Strikeforce í UFC. Það var ekki auðvelt að velja fimm áhugaverðustu bardagamennina sem komu frá Strikeforce því margir frábærir bardagamenn komu yfir, en eftirtaldir eru að mati höfundar mest spennandi nýliðarnir úr Strikeforce.

5. Josh Barnett (33-6)

Josh “The Warmaster” Barnett hefur verið atvinnumaður frá 1997 og barist meðal þeirra bestu allan tímann. Hann er því með ótrúlega mikla reynslu þrátt fyrir að vera aðeins 36 ára gamall. Hann er einn besti glímumaður í þungavigtinni og hefur 20 sinnum sigrað með uppgjafartaki og átta sinnum með rothöggi eða tæknilegu rothöggi.

Margir aðdáendur voru gríðarlega spenntir að sjá Barnett stíga inn í UFC búrið í fyrsta sinn síðan 2002 þegar hann mætti Frank Mir í lok ágúst á UFC 164. Það tók Barnett ekki nema 1:56 að afgreiða Mir og ef hann sigrar Travis Browne í lok desember gæti verið stutt í að Barnett berjist um þungavigtartitilinn.

4. Ronaldo Souza (19-3)

 

Ronaldo “Jacare” Souza er einn af bestu glímumönnum í UFC og stórhættulegur standandi. Hann er fyrrverandi millivigtarmeistari Strikeforce og hann hefur unnið átta gullverðlaun á heimsmeistaramótinu í BJJ og tvö gull á ADCC. Af 19 sigrum hans hafa 14 komið með uppgjafartaki. Hann er afar öflugur íþróttamaður og á allra síðustu árum hefur honum tekist að verða stórhættulegur standandi svo Souza á eftir að hrista eitthvað upp í millivigtinni í UFC.

Souza hefur barist tvisvar í UFC, fyrst á móti Chris Camozzi og síðast gegn Yushin Okami. Camozzi var afgreiddur með stórglæsilegu uppgjafartaki eftir 3:37 í fyrstu lotu og gegn Okami sýndi Jacare hvað hann er orðinn hættulegur standandi og sigraði með tæknilegu rothöggi eftir 2:47. Souza er nú búinn að vinna fimm bardaga í röð og í febrúar mætir hann Francis Carmont, sem hefur unnið 11 bardaga í röð, þar af sex í UFC. Sigurvegarinn í þeim bardaga verður í sterkri stöðu í millivigtinni.

3. Robbie Lawler (22-9)

Robbie Lawler náði góðum árangri í UFC á árunum 2002-3 en svo fór að halla undan fæti og hann missti samninginn 2004. Eftir ágætt gengi í minni samtökum átti Lawler misjafnan feril í Strikeforce en hann hefur byrjað ótrúlega vel í UFC og er strax kominn hátt á styrkleikalista í veltivigtinni.

Lawler hefur sýnt sínar bestu hliðar í UFC og sigrað þrjá bardaga í röð. Fyrst rotaði hann Josh Koscheck og Bobby Voelker og svo sigraði hann undrabarnið Rory MacDonald eftir dómaraúrskurð á UFC 167 í nóvember. Það hefur enn ekki verið staðfest hverjum Lawler mætir næst en hann er ekki langt frá titilbardaga.

2. Gilbert Melendez (22-3)

Áður en Gilbert Melendez kom yfir í UFC sögðu margir að hann væri ókrýndur konungur léttvigtarmanna. Hann var léttvigtarmeistari Strikeforce og varði titilinn fjórum sinnum í röð áður en hann kom í UFC. Hann fékk því umsvifalaust titilbardaga í UFC og mætti Benson Henderson, þáverandi léttvigtarmeistara, 20. apríl síðastliðinn.

Hann tapaði þeim bardaga naumlega eftir klofinn dómaraúrskurð og mætti svo Diego Sanchez í einum eftirminnilegasta bardaga ársins á UFC 166 í október. Hann gjörsigraði Sanchez og sýndi að þó Henderson hafi marið sigur gegn honum er Melendez mikið afl í léttvigtardeildinni og hann á mjög líklega eftir að berjast um léttvigtartitilinn aftur.

1. Daniel Cormier (13-0)

Eflaust myndu margir mótmæla því að Cormier sé spennandi bardagamaður. Þó honum hafi gengið vel í UFC og sigrað tvo af bestu bardagamönnum þungavigtardeildarinnar, Frank Mir og Roy Nelson, var frammistaða hans í hvorugum bardaganna mikið fyrir augað. Hann átti þó mjög spennandi og skemmtilegan bardaga við Josh Barnett um þungavigtartitilinn í Strikeforce árið 2012. Það verður heldur ekki af Cormier tekið að hann er afar tæknilega fær bardagamaður og einn af bestu glímumönnunum í UFC, en hann var fyrirliði glímuliðs Bandaríkjanna á Ólympíuleikunum árið 2004.

Aðal æfingafélagi hans er þungavigtarmeistarinn Cain Velasquez og þar sem þeir kumpánar vilja ekki mætast í búrinu stefnir Cormier á að létta sig og keppa næst í léttþungavigt. Hann vonast til að velgengni hans í UFC til þessa og sú staðreynd að hann er ósigraður skili honum titilbardaga gegn þeim besta í heimi, léttþungavigtarmeistaranum Jon Jones. Það verður spennandi að sjá hvernig það fer.

spot_img
spot_img
spot_img
Oddur Freyr Þorsteinsson
Oddur Freyr Þorsteinsson
Greinahöfundur á MMAFréttir.is
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular