Thursday, June 13, 2024
spot_img
HomeErlentFrancis Ngannou: Dreymt um þetta alla ævi

Francis Ngannou: Dreymt um þetta alla ævi

Francis Ngannou er nýr þungavigtarmeistari UFC. Ngannou ætlar að vera duglegur að berjast og sér fyrir sér bardaga gegn Jon Jones næst.

Francis Ngannou rotaði Stipe Miocic í nótt á UFC 260. Ngannou rotaði Miocic í 2. lotu og tryggði sér titilinn.

„Þetta er ótrúleg tilfinning. Þetta er eitthvað sem mig hefur dreymt um alla ævi. Stundum leið mér eins og ég væri að drukkna og þurfti að berjast til að lifa af en hérna er ég. Okkur tókst þetta. Ég þarf að melta þetta og meðtaka þetta allt en núna er ég út um allt,“ sagði Ngannou eftir bardagann.

Það var mikill fögnuður í heimalandi Ngannou í Kamerún og varð allt vitlaust þar þegar Ngannou kláraði bardagann. „Fólkið er að fagna. Ég hringdi í mömmu en gat ekki talað við hana, það er ekki hægt að ná í neinn í Kamerún núna. Það er allt sturlað þar, það er ótrúlegt. Síðast [þegar ég mætti Stipe Miocic] voru sorgartár, það var slæmt en núna eru þetta gleðitár.“

Strax er farið að tala um mögulegan bardaga Ngannou gegn Jon Jones. Miðað við ummæli Dana White í gær bíða erfiðar samningaviðræður við Jones en Ngannou vill helst mæta honum næst.

„Jon Jones finnst mér hljóma best. Hvað sem gerist þá mun ég berjast. Ef Jon Jones kemur ekki upp í þungavigt þarf þyngdarflokkurinn að halda áfram. Ég vil vera virkur meistari og verja beltið oftar en hefur verið gert á síðustu árum.“

Staðan er núna 1-1 á milli þeirra Miocic og Ngannou og vill Ngannou ekki útiloka annan bardaga við Miocic. Miocic þarf þó sennilega að taka sér góða hvíld eftir rothöggið í nótt og gæti Derrick Lewis verið næstur fyrir Ngannou ef samningar nást ekki við Jon Jones.

„Persónulega tel ég mig ekki þurfa að berjast við Stipe aftur núna. Hann sagði að ég myndi ekki verða meistari fyrr en hann myndi leggja hanskana á hilluna, þannig að kannski er hann bara hættur núna. Ég væri samt til í að berjast við hann aftur. Ég tapaði fyrir honum og hann er besti þungavigtarmaður allra tíma. Ef ég þarf að berjast við hann aftur þá geri ég það.“

Hvað sem gerist vill Ngannou í það minnsta vera duglegur að berjast. „Ég hef aldrei viljað berjast minna. Ég hef alltaf viljað berjast oft. Ég vona að ég geti verið duglegur að berjast sem meistari. Ég vil berjast 2-3 bardaga á hverju ári.“

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular