Tuesday, March 19, 2024
HomeForsíðaFyrsta kæra dómaraúrskurðs HNÍ felld niður

Fyrsta kæra dómaraúrskurðs HNÍ felld niður

Mynd: Ásgeir Marteinsson.

Um síðustu helgi fór fram Íslandsmeistaramótið í hnefaleikum í Reykjanesbæ. Í einum bardaganum var niðurstaða bardagans kærð til HNÍ en þetta er í fyrsta sinn sem slíkt hefur verið gert hér á landi.

Í úrslitum í -81 kg flokki sigraði Elmar Gauti Halldórsson (HR) Hróbjart Trausta Árnason (HFK) eftir klofna dómaraákvörðun, 3-2 að mati fimm dómara, í jöfnum bardaga.

Á sunnudaginn barst HNÍ (Hnefaleikafélag Íslands) fyrsta kæra um dómaraúrskurð frá stofnun sambandsins. HNÍ þurfti því að fara yfir bardagann aftur.

Þegar kæra kemur inn velur HNÍ fimm óháða matsmenn til að yfirfara myndband af bardaganum og skila matsmennirnir inn rökstuddum úrskurði til sambandsins. Allir matsmenn þurfa að vera sammála um að snúa dómaraúrskurði við til að niðurstöðu bardagans sé breytt og samræmist það alþjóðlegum reglum AIBA sem HNÍ fylgir. Á miðvikudaginn var svar sent til hluteigandi aðila þar sem niðurstaða bardagans hélt og er Elmar því enn Íslandsmeistari í -81 kg flokki.

„Þetta kom mér auðvitað á óvart [að það skyldi koma inn kæra]. Næsti bardagi var varla byrjaður þegar þeir voru búnir að ákveða að kæra,“ segir Elmar.

„Ég hef barist mjög jafna bardaga áður og tapað svo ég þekki alveg tilfinninguna að líða eins og maður hafi verið rændur. Ég var klárlega stressaður að þurfa láta frá mér titilinn sem ég hafði æft svo mikið fyrir en eftir að hafa horft á þetta nokkrum sinnum þá fannst mér ólíklegt að niðurstaðan myndi breytast.“

Mynd: Ásgeir Marteinsson.

„Mér fannst ég vera að skora meira fyrstu tvær loturnar og tók ekki mörgum hreinum höggum en fannst erfitt að greina þriðju lotuna,“ segir svo Hróbjartur um bardagann.

„Ég man bara eftir að við vorum hissa með úrskurðinn og þegar ég fór í klefa eftir bardagann þá var mér sagt að þjálfarar mínir hefðu lagt inn kvörtun. Ég á ennþá eftir að horfa á bardagann aftur en ég var svekktur með úrskurð dómaranna.“

Elmar Gauti heldur því Íslandsmeistaratitlinum sínum eftir fyrstu kæru um dómaraúrskurð frá stofnun HNÍ. Bardagann má sjá hér að neðan.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular