spot_img
Thursday, December 19, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentGamlir kallar í kóngaslag

Gamlir kallar í kóngaslag

Gömlu brýnin Frank Mir og Fedor Emelianenko eiga að baki feril sem teygir sig til síðustu aldamóta. Báðir eru fyrir löngu orðnir að goðsögnum í okkar ungu íþrótt en eru þó ekki hættir og mætast galvaskir á laugardagskvöldið á Bellator 198.

Það kann að vera að nútíma MMA aðdáendur þekki lítið til þessara fyrrverandi meistara en þá er nauðsynlegt að fara í örstutta sögustund. Á sínum tíma voru báðir þessir kappar kóngar í sitt hvorum heimshlutanum. Fedor Emelianenko réði ríkjum í Pride FC í Japan en árið 2003 vann hann titilinn í þungavigt af Antônio Rodrigo Nogueira. Hann valtaði í kjölfarið yfir hvern áskorandann á fætur öðrum, meðal annars Mark Coleman og Kevin Randleman sem báðir unnu titilinn í UFC. Stuttu síðar sigraði hann Nogueira í annað sinn og lagði auk þess Mirko Cro Cop í einum besta MMA bardaga allra tíma.

Á sama tíma, hinum megin við hafið, var hinn 25 ára Frank Mir að marka sín spor í söguna. Eftir tvo eftirminnilega bardaga við Wes Sims barðist Mir við Tim Sylvia árið 2004 og tók af honum beltið í þungavigt UFC með armlás sem braut framhandlegg Sylvia. Mir lenti í kjölfarið í mótorhjólaslysi og missti þannig beltið. Það er hins vegar gaman að hugsa til þess að bæði Frank Mir og Fedor Emelianenko voru kóngar í ríki sínu í þungavigt á nákvæmlega sama tíma. Emelianenko barðist hins vegar aldrei í UFC og Mir lagði leiðir sínar aldrei til Pride svo þeir mættust aldrei þegar þeir voru upp á sitt besta.

Það er kannski lítil sárabót að sjá þessa kappa mætast núna en betra seint en aldrei. Niðurstaðan mun ekki segja okkur hver hefði unnið 2004 en það er samt eitthvað magnað við þennan bardaga. Báðir eru alhliða góðir bardagamenn sem geta rotað og unnið með uppgjafartaki.

Báðir eru auðvitað langt frá sínu besta og hafa ekki átt góðu gengi að fagna undanfarið. Mir hefur tapað sex af síðustu átta bardögum sínum en Emelianenko var á fínni sigurgöngu áður en Matt Mitrione rotaði hann síðasta sumar. Hinn 38 ára Mir hefur ekkert barist í rúm tvö ár en hann fékk tveggja ára bann eftir fall á lyfjaprófi í UFC. Hann óskaði eftir að fá samningi sínum rift og er nú kominn í Bellator.

Þegar bardaginn var fyrst tilkynntur þótti Mir aðeins of þungur og hefur hann nú greint frá því að hann var rúm 300 pund (136 kg). Bardagaaðdáendur gerðu stólpagrín að vaxtarlagi Mir en hann hefur aðeins náð að skafa af sér fyrir þennan bardaga. Það er freistandi að kalla þá Mir og Emelianenko bangsa og krumpudýr en þeir krefjast bara of mikillar virðingar. Sýnum þeim lotningu um helgina er þeir blæða fyrir okkur eins og Maximus í The Colosseum, er ykkur ekki skemmt!?

spot_img
spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular