0

Halldór Logi: Leið eins og ég væri ósigrandi

Halldór Logi Valsson náði eftirtektarverðum árangri á ADCC Norway Open í Osló um síðustu helgi. Halldór Logi vann bæði sinn flokk og opinn flokk og tryggði sér þar með farmiða á sterkt mót í haust.

Mótið var afar sterkt en Halldór vann samt sjö af níu glímum sínum á uppgjafartaki. Hann byrjaði á að vinna -100 kg flokkinn og tók svo +76 opna flokkinn. Á mótinu voru tveir opnir flokkar en Ómar Yamak vann -76 kg opna flokkinn en Halldór Logi þyngri opna flokkinn.

Í gær birtum við viðtal við Ómar Yamak sem náði sama árangri og Halldór. Líkt og Ómar er Halldór ekki viss hvort um sé að ræða hans besta árangur á glímumóti.

„Ég hef aldrei unnið eins margar glímur á einu móti eins og núna og þetta var mjög krefjandi, sérstaklega andlega. En mér fannst erfiðara þegar ég var lélegri að glíma þegar ég var að keppa á mótum hér heima og maður var bara að byrja að keppa. Það fannst mér miklu meira krefjandi og erfiðara. Eins og þegar ég vann Mjölnir Open fyrst, mér fannst það stærri árangur í sjálfu sér, það var persónulegri sigur. En að vissu leyti var þetta ógeðslega hátt level og mér finnst ég líka bara vera orðinn betri en ég var,“ segir Halldór um mótið.

„Þetta var frekar erfitt andlega. Bæði mikið af glímum, mikið af góðum gaurum og tók langan tíma. Við vorum vaknaðir kl 8, tókum lest til Osló og áttum að byrja kl. 12. Síðan voru einhverjir dómarar sem mættu ekki og við byrjum ekki að keppa fyrr en 19 um kvöldið og vorum að keppa til klukkan 23 um kvöldið. Það tók andlega á og auðvelt að missa fókusinn þá. Það var mjög erfitt en gaman að finna svona andlegan sigur og hvernig maður höndlaði þetta.“

Hugarfarið hjá Halldóri var með besta móti um helgina en líkaminn var kannski ekki í sínu besta ásigkomulagi. Það sýndi Halldóri hvað andlegi þátturinn getur skipt miklu máli á mótum. „Líkamlega leið mér ekkert alltof vel en andlega leið mér ógeðslega vel og þá finnur maður fáranlegan mun. Vikan á undan var erfið, var búinn að vera í campinu hans Gunna að æfa mikið og orðinn þreyttur. Var síðan illa sofinn en náði að trompa það með andlega þættinum. Ótrúlegt hvað það gerir mikið fyrir mann.“

„Þetta er í annað sinn sem mér líður eins og ég komist í þetta zone. Eins og fyrir Grettismótið þar sem ég næ bara að fókusa á það og hugsa alltaf um það jákvæða og blokka út allt það neikvæða. Ég visualize-a frekar mikið og ég var búinn að gera það daginn fyrir. En ekki of mikið því þá verð ég soldið stressaður. Mér leið bara eins og ég væri ósigrandi. Þetta er ótrúlegt hvað andlegi þátturinn gerir ógeðslega mikið þó líkaminn sé ekki alveg að spila með manni.“

Erfiðasti mótherji Halldórs á mótinu var Daninn Kasper Larsen. „Fyrsti gaurinn sem ég keppti við var eini maðurinn sem ég vissi hver var á þessu móti. Er búinn að fylgjast aðeins með honum en hann er búinn að vera að vinna flest af sterkustu mótunum í Evrópu, bæði í +100 kg og -100 kg. Ég vissi að hann væri mjög góður og keppti á móti honum í fyrstu glímu í mínum flokki og fann strax að hann var mjög þéttur.“

„Ég keppti svo aftur við hann í úrslitunum í opna flokkinum. Hann jarðaði alla aðra, jarðaði alla á leið í úrslitin í opna og stóð sig ótrúlega vel. Því miður þá leið yfir hann í úrslitaglímunni. Hann fékk blóðsykurfall og datt út. En fyrr um daginn vann ég hann á submission í mínum flokki eftir tvær mínútur. En mjög leiðinlegt, við höfum hist áður og glímt áður, æft saman. Ég fann strax að hann var mjög þéttur og seigur og var pínu stressaður fyrir lokaglímunni af því hann var góður í því sem ég er ekkert rosalega góður í.“

„Þetta var ógeðslega steikt. Vorum standandi og aðeins að þreyfa fyrir hvor öðrum, berjast um gripin en svo allt í einu hrynur hann niður. Ég hélt hann væri að grínast og djóka í mér. Hann var alltaf búinn að vera eitthvað að skjóta á mig létt í glímunni af því við þekkjumst aðeins og hann var alltaf að segja eitthvað og gera lítið úr mér í gríni. Svo bara allt í einu leggst hann niður og lokar augunum og ég hélt hann væri bara að djóka en svo rankar hann við sér í sjokki og vissi ekkert hvað gerðist. Var ógeðslega anti-climatic augnablik og mér leið eiginlega ömurlega, leiðinlegur sigur. Hann hágrét í 20 mínútur eftir þetta í sjokki.“

Líkt og hjá Ómari tekur núna við ADCC European Trials í Búkarest í október. „Það verður klárlega sterkasta mót sem ég hef farið á og verður fyrst og fremst bara ógeðslega gaman. Góð reynsla og ég ætla bara að æfa ógeðslega mikið fram að þessu og reyna að taka þetta. Held það sé ekkert annað í stöðunni. Ég held ég eigi alveg góða möguleika. Á mótinu um síðustu helgi voru sterkustu glímumenn á Norðurlöndunum og mér fannst við bara yfirburðar betri en þeir. Ég hlakka bara til.“

Halldór hefur átt góðu gengi að fagna á þessu ári en fyrir nokkrum vikum síðan fékk hann silfur á ACBJJ glímumótinu í Póllandi. Halldór er fæddur og uppalinn á Akureyri og tók sín fyrstu skref í glímunni í Fenri á Akureyri. Þar fékk hann brúna beltið frá Ingþóri Erni Valdimarssyni en fluttu til Reykjavíkur síðasta haust.

„Ég hef fundið fyrir fáranlegum framfærum síðan ég flutti Suður og kom í Mjölni. Bara búið að vera mikið step up fyrir mig æfingalega séð, með sterkum og góðum æfingafélögum. Að geta glímt meira, í skipulagðara og betra umhverfi og fyrir mig er það búið að vera ristastórt skref í mínum leik. Finn bara á hverjum degi að maður er að bæta sig, finnst það bara ótrúlegt, maður er alltaf að bæta sig. Þakka bara æfingafélögum fyrir það. Svo vil ég auðvitað þakka styrktaraðilunum mínum, takk Inverted Gear og Amino Energy og stjórn Mjölnis fyrir að styrkja mig.“

Pétur Marinó Jónsson

Comments

comments

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Stöð 2 Sport -MMA fíkill

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.