0

Ómar Yamak: Þurfti bara að hugsa smá fokkit og vaða í hann

Ómar Yamak náði frábærum árangri á ADCC Norway Open um helgina. Ómar tryggði sér tvöfalt gull og farmiða á stórt mót í október en þetta er hans besti árangur á móti.

Ómar Yamak var einn af fjórum keppendum frá Mjölni á mótinu í Osló um síðustu helgi. Ómar byrjaði á að vinna -70 kg flokk á hæsta getustigi mótsins (Professional flokkur) og tók svo -76 kg opna flokkinn. Ómar hefur verið að gera það gott á mótum hérlendis og erlendis að undanförnu en var þetta hans besta frammistaða á glímumóti til þessa?

„Já og nei. Ég gerði mikið af villum í sumum glímum. Tvær glímur í opna flokkinum þar sem ég gerði taktísk mistök eins og að leyfa honum að komast ofan á einu sinni þegar ég var með bakið og hann snýr inn í mig sem gaf honum tvö stig undir þessum reglum,“ segir Ómar en ADCC reglur voru í gildi á mótinu.

„Ég var samt ánægður með að ég gafst ekkert upp þrátt fyrir að enda undir á stigum. Ég náði að halda áfram og pusha áfram þó það hafi bara verið mínúta eftir og hann yfir á stigum. Stundum hef ég verið að keppa og verið undir á stigum og andlega gefið þetta frá mér. En það kom aldrei upp í hausinn á mér núna. Ég var með það allan tímann í hausnum í sjálfri glímunni að ég myndi vinna.“

„Ef ég hefði hugsað fyrirfram að það væri líklegt að ég myndi tapa þá hefði ég örugglega ekki náð að snúa stöðunni við á þessu augnabliki þar sem ég var undir pressu. Ég hafði trú á mér fyrir mótið og á mótinu fann ég að ég var að glíma vel og var búinn að æfa ógeðslega mikið undanfarnar vikur. Þegar ég byrjaði fyrstu glímuna á mótinu þá leið mér ógeðslega vel og þá var ég mjög confident eftir það.“

Ómar var samt ekki sannfærður í fyrstu um að honum myndi ganga vel á mótinu. Þetta var skyndiákvörðun að fara á mótið og enginn ákveðinn undirbúningur í nokkrar vikur fyrir mótið.

„Ég hef keppt mikið upp á síðkastið og þetta var smá skyndiákvörðun. Ég var smá að berjast við sjálfan mig hvort ég ætti að fara aftur út að keppa eða ekki. ‘Nenni ég að fara aftur út á eitthvað mót sem ég veit ekki hversu sterkt er’ og þannig hugsanir. Það var smá þannig hugsun tveimur dögum fyrir mótið og velti því fyrir mér hvort þetta yrði einhver fýluferð. Það var smá í hausnum en á sama tíma var ég að hugsa af hverju þetta ætti að vera fýluferð þar sem ég elska að fara út að keppa þó að ég myndi tapa þá myndi ég samt læra slatta af því. En ég var ekkert svona 100% að ég myndi rústa þessu móti fyrst.“

Ómar hefur náð góðum árangri á mótum erlendis á þessu ári. Hann byrjaði árið á að ná bronsinu í sínum flokki á Evrópumeistaramótinu í Portúgal og fékk svo silfur á ACBJJ í Póllandi – allt sterk mót með öflugum keppendum. Á mótinu um helgina fékk Ómar samtals sjö glímur og var erfiðasta glíma mótins undanúrslitaglíman í opna flokkinum.

„Einn gæji í opna flokkinum var ógeðslega góður wrestler, léttari en ég, mjög lágvaxinn og bara ógeðslega skrítið að glíma við hann. Hann náði alltaf að poppa upp, fljótur að standa upp. Ég heyrði að hann hefði keppt á Ólympíuleikunum í Greco-Roman wrestling en ég er ekki búinn að Googla hann til að vera viss. Það var erfitt að mæta honum þar sem ég var tæpur á tíma og gat ekki verið að hugsa eitthvað taktískt og tæknilegt. Ég þurfti bara að hugsa smá fokkit og vaða í hann. Þannig náði ég honum niður í einhverju scrambli. Það var erfitt af því ég var orðinn mjög þreyttur.“

„Tæknilega erfiðasta glíman var svo úrslitaglíman í opna flokkinum. Það var gæji sem var langbestur í flokknum, ég hafði keppt við hann áður og veit hversu góður hann er. Ég var mjög varkár þar, beið eftir að stigin byrjuðu að telja, þá tók ég hann niður í staðinn fyrir að taka hann strax niður en þá myndi ég ekki fá nein stig. Síðan vildi ég ekki taka neina áhættu af því að ég vildi ná í gullið, vildi ekki missa það vegna mistaka,“ segir Ómar en samkvæmt ADCC reglunum er stigagjöf bara í gildi seinni helming glímunnar.

„Ég hef mætt honum áður í galla á Swedish Open 2015 eða 2016. Þá vann ég hann með tveimur stigum. Ég mætti honum líka í fyrstu umferð í mínum flokki og þá gekk mér fáranlega vel, náði submission frekar fljótt. En mér fannst eins og hann hafi verið að fókusa á opna flokkinn. Nokkrir gæjar á mótinu sem voru bara að gefa skít í sinn flokk til að vinna verðlaunin í opna flokkinum. Allir að leitast eftir miðanum en ég var ekki með það hugarfar, ég var bara að reyna að vinna allar glímurnar.“

Á heildina litið var mótið frekar erfitt að mati Ómars enda var þetta langur dagur, margar glímur og öflugir andstæðingar. „Það helsta sem ég tek úr þessu móti er að halda mér bara rólegum á milli glímna. Ekkert að vera að peppast of mikið upp þó ég sé búinn að vinna fjórar glímur og á leið í úrslitaglímu. Oft hef ég verið ógeðslega stressaður fyrir úrslitaglímuna en þarna náði ég að halda mér í sóninu allan tímann. Maður á það til að missa fókus.“

Með sigrinum í -76 kg opnum flokki tryggði Ómar sér farmiða til Búkarest þar sem ADCC European Trials fer fram. ADCC er sterkasta glímumót heims og haldið á tveggja ára fresti þar sem bestu glímumönnum heims er boðið að keppa. Um allan heim eru haldnar undankeppnir til að komast á mótið og fer eitt slíkt fram í Búkarest í október. Þar fá sigurvegararnir í hverjum þyngdarflokki keppnisrétt á ADCC. Ómar gæti því fengið keppnisrétt á ADCC mótið 2019 ef honum tekst að vinna sinn flokk á mótinu í haust.

Ómar er spenntur fyrir mótinu og verður það án nokkurs vafa sterkasta glímumót sem hann hefur keppt á. „Ég býst við að standa mig bara vel á mótinu í haust. Ef ég horfi á BJJ senuna í Evrópu, þá eru einhverjir wrestlerar í Austur-Evrópu sem gætu verið erfiðir og einhverjir sambó gæjar. En ef ég horfi á nogi senuna þá held ég nái að standa mig bara mjög vel. Sérstaklega ef ég næ að þyngja mig aðeins, þá held ég að ég nái alveg að koma á óvart þar.“

„Það eru allir þarna sem þurfa að kunna að wrestla og í vera góðir í jiu-jitsu. Maður sér svo oft að gæjar eru bara góðir í wrestling eða bara góðir í jiu-jitsu en gæjarnir sem eru að vinna ADCC eru gæjarnir sem eru mjög góðir í öllu. Þurfa ekkert að vera geggjaðir wrestlerar en nóg til að redda sér til að standa aðeins. Ég fer bara og geri mitt besta.“

Eins og áður segir fer mótið í Búkarest fram í október en þar mun Halldór Logi Valsson einnig keppa. Halldór náði sama árangri og Ómar á mótinu en viðtal við hann birtist á morgun.

Ómar og Halldór með verðlaunin.

Pétur Marinó Jónsson

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Stöð 2 Sport -MMA fíkill

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.