0

Germaine de Randamie neitar að berjast við Cyborg

Fjaðurvigtarmeistari kvenna, Germaine de Randamie, vill ekki berjast við Cris ‘Cyborg’ Santos. Lítið hefur heyrst í meistaranum síðan hún vann beltið og eykur þetta á óvissuna um hennar næstu skref.

Germaine de Randamie sigraði Holly Holm á UFC 208 í febrúar. Það er enn þann dag í dag fyrsti og eini bardaginn í fjaðurvigt kvenna í UFC.

UFC vonaðist eftir að bóka de Randamie gegn Cyborg enda sú síðarnefnda ein besta bardagakona heims. De Randamie er hins vegar ekkert á því að mæta Cyborg enda vill hún ekki berjast við svindlara að eigin sögn.

„Germaine mun ekki berjast við Cyborg þar sem vitað er að Cyborg er svindlari. Þrátt fyrir að vera undir stöðugu eftirliti tókst henni að falla á lyfjaprófi og mun alltaf vera grunuð um að svindla á kerfinu í stað þess að fylgja reglunum,“ sagði umboðsmaður de Randamie við MMA Fighting.

„Þess vegna telur Germaine og hennar lið að Cyborg ætti ekki að vera leyft að keppa í UFC yfir höfuð. Ef það er eini bardaginn sem UFC vill sjá er Germaine tilbúin að bíða og sjá hvort UFC svipti hana titlinum áður en hún tekur næsta skref.“

Cyborg féll á lyfjaprófi í desember á síðasta ári og var sett í tímabundið bann þann 22. desember. Cyborg fór hins vegar ekki í lengra bann þar sem hún fékk sérstaka meðferðarundanþágu (e. therapeutic use exemption, TUE).

Undanþágan var veitt á þeim grundvelli að lyfið sem hún innbyrti hafi einungis verið til þess að vinna á eftirmálum vegna niðurskurðarins fyrir bardaga hennar í september. Cyborg hefur tvisvar skorið niður í 140 punda hentivigt í UFC og er niðurskurðurinn gríðarlega erfiður fyrir hana.

Cyborg féll hins vegar á lyfjaprófi árið 2011 eftir að anabólísku sterarnir stanozolol fundust í lyfjaprófi hennar. Hún fékk í kjölfarið eins árs bann.

Það verður að segjast eins og er að þetta eru afar sérstök skilaboð frá meistaranum de Randamie. Hún hefur aldrei verið neitt sérstaklega spennt fyrir því að mæta Cyborg. Aðspurð um bardaga gegn Cyborg eftir sigur hennar á Holm í febrúar kvaðst hún þurfa að fara í handaraðgerð og þyrfti að sjá til.

Fjaðurvigt kvenna í UFC hefur byrjað ansi brösulega. Ekki er vitað hvern de Randamie vill berjast við næst enda eru bara tvær konur í fjaðurvigt kvenna í UFC, meistarinn og svo Cyborg.

Pétur Marinó Jónsson

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is

-Æft bardagaíþróttir í 6 ár (fjólublátt belti í BJJ)
-BS í sálfræði
-Lýsi UFC á Stöð 2 Sport
-MMA fíkill
Pétur Marinó Jónsson

Comments

comments

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í 6 ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Stöð 2 Sport -MMA fíkill

Leave a Reply