Friday, April 19, 2024
HomeErlentGetur Rory MacDonald endurheimt fyrra form í Bellator?

Getur Rory MacDonald endurheimt fyrra form í Bellator?

Í kvöld fer Bellator 179 fram þar sem Rory MacDonald berst loksins sinn fyrsta bardaga í Bellator. MacDonald mætir þá Paul Daley og væri sigur í kvöld ansi kærkominn.

Rory MacDonald hefur ekkert barist frá því hann tapaði fyrir Stephen Thompson í júní í fyrra. Það var síðasti bardaginn hans á samningi hans við UFC og samdi hann við Bellator í ágúst. Vitað var að hann myndi taka sér sinn tíma áður en hann færi aftur í búrið enda var nefið hans aftur að plaga hann í Thompson bardaganum.

Ári áður var Rory MacDonald í einhverjum magnaðasta bardaga fyrr og síðar þegar hann fór í fimm lotu stríð við Robbie Lawler. Þar mölbrotnaði nefið hans og tók hann sér tæpa árs pásu áður en hann mætti Thompson. MacDonald var enn í vandræðum með nefið á sér í aðdraganda bardagans og í bardaganum sjálfum. Hann ákvað því að taka sér aftur langt hlé til að leyfa nefinu að jafna sig.

Nú er spurningin hvort Rory MacDonald verði einhvern tímann sami bardagamaður og hann var fyrir Lawler bardagann og hvort nefið hans höndli að vera í þessum erfiða bransa. MacDonald er ennþá einn besti bardagamaður heims í veltivigtinni en hefur ekki unnið bardaga í 31 mánuð.

Síðasti sigur hans var gegn Tarec Saffiedine í Kanada þann 4. október 2014. MacDonald þarf nauðsynlega á sigri að halda til að sýna bardagaheiminum að hann sé ennþá sami bardagamaður og var hársbreidd frá því að verða veltivigtarmeistari UFC.

Paul Daley er andstæðingur hans í kvöld en hann er að koma til baka eftir eitt besta rothögg ferilsins og af nógu er að velja. Sigurinn á Ward var 29. rothögg hans á ferlinum í MMA í hans 55. bardaga. Daley er afar reyndur, höggþungur og ætti að geta reynt á MacDonald þó Kanadamaðurinn sé sigurstranglegri.

Bardaginn er mikilvægur fyrir Rory MacDonald en ekki síður fyrir Paul Daley. Sigurvegarinn fær næsta titilbardaga gegn veltivigtarmeistaranum Douglas Lima. Daley er ólmur í að fá annað tækifæri gegn Lima en hann tapaði fyrir honum í fyrra eftir dómaraákvörðun.

Bellator 179 fer fram í SSE Arena í London í kvöld og verða því flestir áhorfendur á bandi Bretans Paul Daley. Bardagarnir verða ekki sýndir í beinni útsendingu heldur klukkutíma síðar á Spike TV.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular