spot_img
Friday, November 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaGlímumaður mánaðarins: Axel Kristinsson

Glímumaður mánaðarins: Axel Kristinsson

Axel Kristinsson
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Glímumaður mánaðarins að þessu sinni er Axel Kristinsson. Í þessum lið fáum við skemmtilega íslenska glímumenn í smá glímuspjall og fáum að kynnast þeim nánar.

Axel Kristinsson er einn af yfirþjálfurum glímunnar í Mjölni, sér um unglinga- og barnastarfið og stelputímana. Axel er svart belti í brasilísku jiu-jitsu, brúnt belti í júdó og margfaldur Íslandsmeistari í báðum íþróttum.

Hvenær og hvernig byrjaðiru í BJJ?

Ársbyrjun 2009. Þráinn [Kolbeinsson, þjálfari í Mjölni] hafði verið að mæta með mér á júdóæfingar og talaði vel um æfingarnar í Mjölni svo ég ákvað að prófa með honum. Ég vildi samt ekki byrja fyrr en ég kláraði lyfjameðferðina sem ég var í sem var einmitt í ársbyrjun 2009, þannig það varð fyrir valinu.

Hvernig varstu svona góður í BJJ? Þ.e. hvað helduru að hafi stuðlað mest að því að þú varðst svona góður?

Ég held ég geti talið upp nokkur atriði hér. Ég náttúrulega var með grunninn úr júdóinu sem hjálpaði slatta. Þjálfararnir í Mjölni hafa alltaf verið með frekar slakan stíl sem hentaði mér vel og ég er fullviss um það að eftir því sem maður slakar meira á þá lærir maður hraðar. Ég er líka frekar kappsamur einstaklingur og verandi mikið minni en flestir þá komst ég ekki langt á styrk þannig ég þurfti að vinna extra mikið í tækninni á móti. En að sjálfsögðu er aðalatriðið bara tíminn á dýnunum. Of margir nú til dags hafa svo litla þolinmæði (ég þar með talinn í ákveðnum hlutum) og vilja bara verða mjög góðir strax en gera sér ekki grein fyrir magninu af klukkutímum sem þeir bestu eyða á dýnunum. Staðfesta er lykilatriðið.

Hversu oft æfiru BJJ á viku?

Ég glími yfirleitt 4-5 sinnum í viku og lyfti tvisvar.

Hvernig finnst þér best að æfa?

Fer alveg eftir því hvernig mér líður, yfirleitt er ég að æfa stíft í þrjár vikur en tek svo eina rólega (deload) viku á milli. Ef ég er mjög þreyttur í skrokknum glími ég hins vegar bara rólega eða lyfti léttar.

Drillaru mikið eða tekuru meira af frjálsum glímum?

Ég hef aldrei verið sérstaklega mikið að drilla en það er aðallega vegna tímskorts frekar en eitthvað annað. Ég held að það að drilla geti gert mikið fyrir glímuna og ef ég hefði nokkra auka klukkutíma í deginum þá er það eitthvað sem ég myndi bæta við.

Hvernig undirbýrðu þig fyrir mót?

Ég er með frekar ákveðna rútínu varðandi mótin. Ég glími mjög létt eða hvíli alveg vikuna fyrir mót. Ég fer yfirleitt í bíó eða eitthvað kvöldið áður til að dreifa huganum. Á mótsdag borða ég svo lítið sem ekkert, örugglega ólíkt flestum öðrum en mér finnst það hafa slæm áhrif á líðan mína þegar ég keppi. Ég er svo með mína ákveðnu upphitunarrútínu sem ég renni í gegn og hlusta á tónlist á meðan. Ég tek svo eina slowroll lotu og eina harða hraða lotu áður en ég fer inn á keppnisvöllinn. Mér finnst mikilvægt að ná einni harðri glímu til þess að losa aðeins um stressið.

Hver er þín besta frammistaða á móti og var eitthvað eitt atriði sem þér fannst vera lykillinn að árangrinum?

Mín besta frammistaða var sennilega þegar ég keppti á haustmótinu í júdó þegar ég var í lyfjameðferð. Ég var mjög þreklítill en ég hef aldrei verið jafn lítið stressaður og jafn einbeittur og þá. Lykilatriðið þarna var að mér fannst engin pressa vera á sjálfum mér að vinna, hvorki frá mér né öðrum og þetta er hugarástand sem ég er alltaf að leitast eftir að komast í aftur.

Hugsaru vel um mataræðið þitt?

Þokkalega vel já. Ég reyni að elda mikið sjálfur, hugsa um hlutföllin af næringarefnum sem ég set í matinn minn, geri mér boost á morgnanna og borða slatta af grænmeti. Ég er samt alltaf í kappi við að halda þyngd þannig að ef ég dett í einhvern ruslmat þá er það til þess að þyngja mig (ekki gáfulegt ég veit en það virkar).

Geriru einhverjar styrktar- og/eða þolæfingar með glímunni?

Já ég hef verið að fara eftir lyftingarprógrammi frá Ingu Birnu núna í rúmt ár og það er að skila sér rosalega vel. Er búinn að þyngjast og styrkjast og þolið hefur aukist, mæli með henni! Ef ég bara hefði tíma þá myndi ég bæta yoga við, en því miður hef ég lítið komist.

Skemmtilegasti æfingafélaginn?

Svo margir góðir! En ég kannski glími mest við Ómar Yamak og hann er alltaf svo slakur en samt ákveðinn og ekki langt frá minni þyngd. Annars ber líka að nefna hérna Gunna [Nelson], Bjarna B, Sighvat [Helgason] og Þráinn þegar ég fæ tækifæri til að æfa á sama tíma og þeir.

En leiðinlegasti æfingafélaginn?

Sighvatur er bæði einn af uppáhalds og einn af hötuðustu æfingafélögum mínum. Það er óþolandi að vera kominn svona langt í glímunni en geta liðið samt eins og hálfgerðum byrjanda á móti honum.

Á hvaða erlenda glímumann horfiru mest á?

Ég er ekki mikið að skoða myndbönd en ef ég ætti að velja einhverja uppáhalds þá væru það Rafael Mendes og Marcelo Garcia, hef alltaf fílað stílana þeirra.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular